Skoðun

Taktu stjórn á streituviðbragðinu

Sigrún Þóra Sveinsdóttir skrifar

Það fylgja því ýmsar flækjur að vera manneskja, að búa yfir flóknu tauga- og hormónakerfi sem tekur auðveldlega stjórnvölin á bæði athyglinni og tilfinningum okkar í tíma og ótíma. Með innbyggt viðvörunarkerfi sem bregst við hvers kyns ógn, bæði skynjaðri og ímyndaðri getur verið kúnst að komast í gegnum daginn. 

En góðu fréttirnar eru þær að við búum einnig yfir innbyggðu kerfi sem hefur þann eiginleika að róa viðvörunarkerfi líkamans og þegar það virkjast þá hefur það jákvæð áhrif á bæði athyglis- og tilfinningastjórn. Það kallast sefkerfið. Á meðan viðvörunarkerfið getur kveikt á sér við hin óheppilegustu tækifæri og oft án meðvitaðs vilja þá getum við virkjað kerfið sem róar það niður meðvitað og þ.a.l. við hvaða tækifæri sem er. 

Viðvörunarkerfið eða streituviðbragðið er lífsnauðsynlegt og hjálpar okkur m.a. þegar við þurfum að bregðast skjótt við einhverju og þegar við viljum standa okkur. En flestir kannast við það að streituviðbragðið virkjast oft tíðar en þeir vilja og í óheppilegum aðstæðum. Með því að læra að hafa meðvitað áhrif á sefkerfið getum við tekið stjórn á streituviðbragðinu í þessum tilfellum. 

Það eru til ótal margar leiðir til að virkja sefkerfið sem margir nota nú þegar dags daglega. Það má virkja það með sömu leiðum og streituviðbragðið virkjast, þ.e. með ímyndun, hugsunum og sjónrænni ímyndun, rétt eins og áhyggjur, hrakfallaspá o.fl. virkja streituviðbragðið getum við notað hugann til þess að virkja sefkerfið með því að ímynda okkur stað, manneskju eða minningu sem vekur upp hlýju eða ró sem dæmi. Önnur klassísk leið er að nota djúpa magaöndun, þar sem við hægjum á önduninni og blásum út magann á innöndun eins og blöðru og drögum hann saman á útöndun. 

Það má því segja að þótt það sé flókið að vera manneskja og oft erfitt að ná tökum á tilverunni með þetta tauga- og hormónakerfi sem við höfum, þá erum við mjög vel búin af bæði drif- og sefkerfi sem vinna upp á móti hvor öðru eftir því hverju við þörfnumst á að halda hverju sinni. Ósjálfráð kerfi líkamans sem við getum lært að ná meðvitaðri stjórna á með ýmsum leiðum líkt og með því að hafa áhrif á hugsanir, ímyndanir og öndun okkar sem fylgja okkur hvert sem við förum. 

Höfundur er sálfræðingur og doktorsnemi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×