Skoðun

Þór­katla heldur Grind­víkingum í heljar­greipum

Soffía Snædís Sveinsdóttir skrifar

Í dag eru fjórar vikur liðnar frá því að opnað var fyrir umsóknir um uppkaup eigna Grindvíkinga.

Frumvarpið er auðvitað ekki gallalaust og margir sitja eftir með sárt ennið og tapa öllu sínu. Enginn græðir á þessari sölu og fæstir fá til baka þær fjárfestingar sem settar hafa verið í heimilin.

Þegar opnað var fyrir umsóknir um uppkaup fullyrti Þórkatla að ferlið tæki um 2 til 4 vikur. Talað var um að þær eignir þar sem ekki var um að ræða aukið flækjustig gætu gengið hraðar í gegn, aðrar myndu taka lengri tíma.

Ekki hefur heyrst múkk frá Þórkötlu eða framkvæmdastjóra félagsins, Erni Viðari Skúlasyni. Ekkert síðan 27. mars þegar fréttin var birt um að uppkaup myndu hefjast í byrjun apríl. Ekki orð.

Margir Grindvíkingar hafa nú þegar misst þær eignir sem þeir höfðu gert tilboð í, vegna seinagangs Þórkötlu og þeirra sem þar starfa. Mér finnst þessi framkoma Þórkötlu gagnvart Grindvíkingum með öllu ólíðandi. Það er hræðilegt virðingaleysi gagnvart okkur að miðla ekki upplýsingum, að upplýsa ekki um hvað veldur þessum töfum. Hvernig er nýja tímalínan? Á ég að biðja um framlengingu á mínu tilboði um viku? tvær vikur? mánuð?

Fyrir mörg er skaðinn þegar skeður og nokkuð ljóst úr því sem komið er að fleiri munu tapa þeim eignum sem tilboð voru gerð í. Þeim heimilum sem fólk var byrjað að sjá sig fyrir sér að byrja nýtt líf í. Því öryggi sem við ætluðum að búa börnunum okkar. Fótunum er enn á ný kippt undan okkur og í þetta sinn er það Þórkatla sem dregur okkur niður.

Þórkatla gefur skít í okkur. Það að standa ekki við gefin loforð er eitt, það að þegja og miðla ekki upplýsingum er annað. Við erum þolinmótt fólk, við þurfum bara upplýsingar til að reyna að vinna úr okkar málum.

Ég hef heyrt ávinning af því að rafræna lausnin sé það sem er að tefja ferlið. Þessi fína lausn sem byrjað var að vinna í fyrir áramót. Ef það er tilfellið er ekkert annað að gera en að bretta upp ermarnar og boða okkur til undirritunar með gamla laginu. Það er nokkuð ljóst að Þórkatla hefur ekki verið vakin og sofin yfir þessu verkefni, þar á bæ hefur sennilega enginn verið í vinnu yfir páskana, um kvöldin og um helgar. Sum verkefni eru bara þess eðlis að þau þurfa að klárast hratt og vel. Stundum þarf bara að spíta í lófana og láta hlutina ganga og ef fyrsta lausnin virkar ekki, þarf bara að halda áfram og prófa næstu.

Girðið ykkur í brók!

Takk Þórkatla og takk Ernir Viðar Skúlason fyrir ekki neitt!

Höfundur er Grindvíkingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×