Fótbolti

Man United reynir að lokka til sín yfir­mann frá Southampton

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jason Wilcox er eftirsóttur af Manchester United.
Jason Wilcox er eftirsóttur af Manchester United. Catherine Ivill/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United hefur sent fyrirspurn til Southampton varðandi að ráða Jason Wolcox, yfirmann knattspyrnumála hjá Southampton, til starfa.

United, sem hefur verið að uppfæra teymið sitt undanfarnar vikur, vill ráða þennan fyrrum leikmann Blackburn til starfa sem tæknistjóra (e. technical director).

Úrvalsdeildarfélagið hefur boðið Southampton það sem samsvarar árslaunum Wilcox og telur félagið að það virkji klásúlu sem losi hann undan samningi sínum. Southampton efast þó einfaldlega um tilvist umræddrar klásúlu og samkvæmt heimildum Sky Sports eru forráðamenn félagsins pirraðir á því hvernig Manchester United stendur að málunum.

Forráðamenn Southampton pirra sig á því að verið sé að rugla Wilcox í ríminu nú þegar liðið á aðeins átta deildarleiki eftir og möguleikinn á sæti í ensku úrvalsdeildinni lifir enn góðu lífi. Þá telur félagið einnig að Wilcox sé mun meira virði en það sem United hefur boðið, þrátt fyrir að hann hafi aðeins verið hjá Southampton í níu mánuði.

Forráðamenn United telja hins vegar að þeir hafi staðið rétt að málunum. Félagið telur sig hafa nálgast málið af virðingu og að það sé óraunhæft fyrir Southampton að ætlast til að fá meira en hefur verið boðið í Wilcox.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×