Sport

Olli stórum á­rekstri með kapp­akstri og flúði vett­vang

Sindri Sverrisson skrifar
Rashee Rice átti frábært fyrsta tímabil með Kansas City Chiefs og varð meistari.
Rashee Rice átti frábært fyrsta tímabil með Kansas City Chiefs og varð meistari. Getty/Nick Tre. Smith

Lögreglan í Dallas í Bandaríkjunum leitar nú að Rashee Rice, leikmanni meistaraliðs Kansas City Chiefs, sem talinn er hafa valdið árekstri fjölda bíla með kappakstri.

Samkvæmt frétt The Dallas Morning News er Rice grunaður um ofsaakstur en hann mun hafa ekið Corvette-bifreið sinni í kappakstri við mann á Lamborghini-bifreið, þar til að þeir misstu stjórn á bifreiðunum.

Þetta olli stórum árekstri því fjórir bílar til viðbótar klesstu á. Ökumennirnir tveir sem tóku þátt í kappakstrinum flýðu af vettvangi en hlú þurfti að tveimur öðrum ökumönnum, og tveir menn voru fluttir á sjúkrahús með minni háttar áverka.

Áreksturinn átti sér stað klukkan 18:20 að staðartíma, í gærkvöldi, á hraðbraut í Dallas.

Kona sem slasaðist í árekstrinum segir að ökumennirnir hafi stofnað lífi fjögurra ára sonar hennar í hættu, og síðan gengið í burtu án þess að sýna nokkra samúð.

Talsmaður lögreglu segir að enn sé unnið að því að fá á hreint hverjir hafi ekið Corvette- og Lamborghini-bílunum en The Dallas Morning News segist hafa undir höndum gögn frá lögreglu um að Rice sé grunaður um að vera annar ökumannanna.

Rice, sem er 23 ára, varð NFL-meistari með Kansas City Chiefs í vetur og átti ríkan þátt í titlinum, eftir að hafa verið valinn í annarri umferð nýliðavalsins í fyrra.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×