Fótbolti

Orri Steinn meðal verð­mætustu leik­manna Dan­merkur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Steinn í leik gegn Manchester City fyrr á árinu.
Orri Steinn í leik gegn Manchester City fyrr á árinu. Vísir/Getty Images

Orri Steinn Óskarsson, framherji Íslands og FC Kaupmannahafnar, er með verðmætustu leikmanna efstu deildar Danmerkur að mati tölfræðisíðunnar CIES Football Observatory.

Hinn 19 ára gamli Orri Steinn er byrjaði í 4-1 sigri Íslands á Ísrael í umspili um sæti á EM 2024 á dögunum. Þá kom hann inn af bekknum í grátlegu 2-1 tapi gegn Úkraínu þegar EM draumurinn rann Íslandi úr greipum.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Orri Steinn spilað töluvert með FC Kaupmannahöfn á þessari leiktíð. Hann var settur út í kuldann eftir að danska úrvalsdeildin hófst að nýju eftir jólafrí en hefur fengið tækifæri í síðustu leikjum. Til að mynda lagði hann upp mark liðsins í tapi gegn Manchester City á Etihad-vellinum með glæsilegri hælsendingu.

Íslenski framherjinn er metinn á 9,4 milljónir evra eða tæplega einn og hálfan milljarð. Er hann í 9. sæti yfir verðmætustu leikmenn deildarinnar. Bakvörðurinn Elias Jelert, samherji Orra Steins, er verðmætastur. Talið er næsta öruggt að hann verði seldur til stærra félags nú í sumar. Sama á við um Roony Bardghji sem er í 3. sæti listans. 

Alls eru fimm leikmenn FCK meðal tíu verðmætustu leikmanna deildarinnar. Hinir tveir eru markvörðurinn Kamil Grabara – sem gengur til liðs við þýska úrvalsdeildarfélagið Wolfsburg í sumar – og vængmaðurinn Elias Achouri.

Orri Steinn hefur komið við sögu í 20 leikjum í deild og bikar á tímabilinu. Hefur hann skorað í þeim fimm mörk og gefið fimm stoðsendingar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×