Íslenski boltinn

„Af hverju tóku önnur lið ekki Viðar?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson var kynntur til leiks hjá KA á föstudaginn langa.
Viðar Örn Kjartansson var kynntur til leiks hjá KA á föstudaginn langa. ka

Sérfræðingar Stúkunnar velta fyrir sér hverju koma Viðars Arnar Kjartanssonar muni breyta fyrir KA.

KA er spáð 6. sæti Bestu deildarinnar í árlegri spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports. KA-menn enduðu í 7. sæti á síðasta tímabili.

KA hafði hægt um sig á leikmannamarkaðnum í vetur og fékk einungis Hans Viktor Guðmundsson frá Fjölni, allt þar til Viðar kom á föstudaginn langa. Hann hefur ekkert spilað í vetur og óvíst er hversu góðu formi hann er í.

„Hann æfði fyrst með Selfossi, svo aðeins með FH en síðan veit ég ekki til þess að hann hafi verið hjá einhverju félagi í svolítinn tíma. Hann vantar ekki bara leikform, hann vantar að komast í alvöru hlaupaform. Hann er aðeins þyngri en vanalega. Maður sér það alveg á honum. Það munar helling um það, að bíða aðeins eftir honum,“ sagði Albert Brynjar Ingason í upphitunarþætti Stúkunnar.

Klippa: Stúkan - umræða um Viðar Örn

Sigurbjörn Hreiðarsson tók svo við boltanum.

„Við erum að tala um Viðar hérna og það er verið að ræða um að hann verði aðalmaðurinn. Hann er búinn að æfa með öðrum liðum á Íslandi. Af hverju tóku þau hann ekki? Ef hann væri í toppgír og að sýna eitthvað væri ekki búið að taka hann?“ spurði Sigurbjörn. Guðmundur Benediktsson benti svo á að það hefði aldrei verið ætlun FH-inga að semja við Viðar.

„Sem er ótrúlegt því FH er búið að missa 45 prósent af mörkunum sínum frá því í fyrra. Ég spyr mig af hverju var hann ekki tekinn af öðrum liðum í bænum ef hann var í einhverju standi?“

KA mætir HK í fyrsta leik sínum í Bestu deildinni á sunnudaginn.

Umræðuna um KA-liðið má sjá í spilaranum að ofan. Að neðan má heyra þáttinn í heild sinni, sem og á öllum helstu hlaðvarpsveitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×