Innlent

Engu nær um hvellinn dular­fulla

Árni Sæberg skrifar
Íbúar Salahverfis voru meðal þeirra sem heyrðu hvellinn.
Íbúar Salahverfis voru meðal þeirra sem heyrðu hvellinn. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er engu nær um hvellinn sem heyrðist víða á höfuðborgarsvæðinu á sunnudagskvöld.

Hávær hvellur ómaði um höfuðborgarsvæðið laust fyrir klukkan ellefu á Sunnudagskvöld. Margir í Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ urðu varir við sprenginguna og hún var nokkuð mikið rædd í hverfahópum á Facebook.

Heimir Ríkharðsson, lögreglufulltrúi á lögreglustöð þrjú, sem þjónustar Kópavog og Breiðholt, segir í samtali við Vísi að lögreglu hafi borist tilkynning vegna málsins en lítið annað sé vitað um það.

Tilkynnandi hafi verið á níundu hæð fjölbýlishúss í Kópavogi og haft gott útsýni. Hann hafi ekki séð neitt fólk á ferli eða ummerki um sprengingu, sem hefði getað útskýrt hvellinn.

Engin ummerki um flugelda

Síðast þegar tilkynnt var um sams konar hvell hafi verið um strákapör í Breiðholti að ræða, þar sem ungir menn höfðu verið að fikta með breytta flugelda. 

Lögreglumenn á vettvangi hafi ekki séð nein ummerki eða skemmdir sem bentu til að það sama hefði verið uppi á teningnum núna.

„Þetta er óútskýrt,“ segir Heimir.


Tengdar fréttir

Hvellirnir afleiðing strákapara í Fellunum

Miklir hvellir sem heyrðust víða á höfuðborgarsvæðinu seint í gærkvöldi voru hvellir í flugeldum, sem átt hafði verið við, í Fellunum í Breiðholti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×