Sport

Ís­lensku stelpurnar mætast í sleggju­bar­daga í Texas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir eiga saman sautján bestu köst Íslandssögunnar.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir eiga saman sautján bestu köst Íslandssögunnar. Samsett/@gudrunkaritas og @elisabet0

Íslensku frjálsíþróttakonurnar Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir og Elísabet Rut Rúnarsdóttir eru að byrja tímabilið vel og það verður skemmtilegt einvígi þeirra á milli á Skírdag.

Guðrún Karítas margbætti Íslandsmetið í lóðkasti í vetur og byrjaði utanhússtímabilið á því að bæta sig í sleggjukasti með því að kasta 67,01 metra á fyrsta móti. Hún var þarna að bæta sinn persónulega árangur um tvo metra. Guðrún hafði kastað lengst áður 65,42 metra.

Þetta þýðir að Ísland á tvær efstu stelpurnar á afrekalista bandarísku háskólanna á tímabilinu. Í fyrsta sætinu er Elísabet Rut Rúnarsdóttir sem byrjaði sitt utanhússtímabil á því að kasta 69,11 metra. Þar bætti Elísabet Íslandsmet sitt um meira en tvo metra með mögnuðu kasti.

Gamla Íslandsmet Elísabetar frá því í júní fyrra var upp á 66,98 metra. Guðrún Karítas kastaði því yfir gamla Íslandsmetinu á sínu fyrsta móti.

Elísabet Rut og Guðrún Karítas eiga nú saman sautján lengstu sleggjuköst Íslandssögunnar. Elísabet Rut á sjö af tíu bestu köstunum en Guðrún á nú það næstbesta og þrjú af lengstu tíu.

Svo skemmtilega vill til að íslensku stelpurnar mætast á Texas Relays móti í Austin í Texas á fimmtudaginn.

Guðrún Karítas er 21 árs gömul og nemi við Virginia Commonwealth háskólann. Elísabet Rut er líka 21 árs gömul og nemi við Texas State háskólann. Skólarnir keppa báðir á þessu móti.

Það verður fróðlegt hvort að einvígi þessa öflugu íslensku kastara kalli jafnvel fram enn betri árangur en þær hafa náð til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×