Sport

McGregor stað­festir endur­komu sína í UFC

Aron Guðmundsson skrifar
Conor McGregor hefur oft tjáð sig um mögulega endurkomu í bardagabúr UFC á undanförnum árum. Núna virðist hins vegar komið skrið á hlutina.
Conor McGregor hefur oft tjáð sig um mögulega endurkomu í bardagabúr UFC á undanförnum árum. Núna virðist hins vegar komið skrið á hlutina. Vísir/Getty

Það virðist allt stefna í að írski vél­byssu­kjafturinn Conor McGregor, goð­sögn í sögu UFC sam­bandsins, muni stíga aftur inn í bar­daga­búrið í sumar. McGregor segir sam­komu­lag hafa náðst við UFC um að hann komi fram á bar­daga­kvöldi sam­bandsins í sumar.

„Kallið kom og við sam­þykktum,“ sagði McGregor í sam­tali við Ariel Helwani í þættinum The MMA Hour. „Það þýðir að í sumar snýr McGregor aftur. Ég er á­nægður með fyrir­varann á þessu. Á­nægður með stöðuna á mér núna.“

Við sáum McGregor síðast berjast á vegum UFC þann 10.júlí árið 2021. Sá bar­dagi, sem var þriðji bar­dagi McGregor við Dustin Poiri­er, fór ekki vel því Írinn fót­brotnaði í fyrstu lotu eftir spark frá Poiri­er.

Það er ó­hætt að segja að McGregor hafi verið and­lit UFC undan­farinn ára­tug. Hann varð fyrsti bar­daga­maðurinn til þess að vera sam­tímis meistari í tveimur þyngdar­flokkum.

Ýmsir hafa þó efast um viljann og löngun McGregor í að halda bar­daga­ferli sínum á­fram. McGregor hefur verið með hæst launuðu í­þrótta­mönnum heims undan­farin ár, hann hefur stofnað sín eigin rekstur, lifir hátt og þyrfti í rauninni, peninganna vegna, ekki að halda á­fram að sínum UFC ferli.

Þá hafa hneykslis­mál utan búrsins tengd McGregor komið upp. Ó­spektir á al­manna­færi, á­sakanir um nauðgun og líkams­árasir hafa komið upp.

Í sam­tali við Ariel Helwani segist McGregor vilja ná tveimur bar­dögum á þessu ári. Hann vildi ekki tjá sig um það hvort bar­daga­kvöld UFC þann 29.júní seinna á þessu ári væri bar­daga­kvöldið sem hann og UFC væru búinn að sam­þykkja sín á milli varðandi endur­komu hans.

Hins vegar þykir nokkuð ljóst að McGregor muni mæta Bandaríkjamanninum Michael Chandler í fyrsta bardaga sínum í endurkomunni en þeir tveir þjálfuðu sitt hvort liðið í raunveruleikaþættinum The Ultimate Fighter, sem UFC stendur fyrir.  

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×