Innlent

Bankarnir geti lækkað eigin vexti án að­komu Seðla­bankans

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Forseti ASÍ bjóst við vaxtalækkun í dag.
Forseti ASÍ bjóst við vaxtalækkun í dag. Vísir/Vilhelm

Finnbjörn Hermannsson forseti ASÍ segir vonbrigði að Seðlabankinn hafi ákveðið að halda meginvöxtum óbreyttum. Forsendur hafi verið fyrir því að lækka vexti í dag. Markmið nýgerðra samninga standi þó enn og væntanlega verði myndarlegrar vaxtalækkunar í maí. Viðskiptabankarnir geti hins vegar lækkað sína vexti.

„Verðbólgan hefur farið niður og undirliggjandi verðbólga hefur farið ennþá meira niður. Við þurftum á því að halda að lækka vextina núna,“ sagði Finnbjörn í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hann kveðst þó enn ánægður með kjarasamningana sem gerðir voru til næstu fjögurra ára. Það komi vaxtaákvörðun eftir þessa í maí og þá búist hann við rausnarlegri vaxtalækkun.

Finnbjörn gerir ráð fyrir að Seðlabankinn hafi horft til þess að ekki væru allir búnir að semja og að fyrirtækin ættu eftir að taka við umsömdum launahækkunum.

„Það er náttúrulega bara ákall til þeirra að þau taki þetta á sig, það fari ekkert af þessu út í verðlagið, og væntanlega er Seðlabankinn að skoða það líka,“ segir Finnbjörn.

Hann minnir á að ágætis gangur sé hjá bönkunum og þeir gætu vel lækkað sína vexti þrátt fyrir að meginvextir Seðlabankans haldist óbreyttir. Bankarnir eigi að sýna rausnarskap og trú á að verkefnið sé að takast.

Forseti ASÍ segir marga leikendur eiga eftir að sýna spilin og hvað þeir ætli að gera. Allir verði að vera samstíga í þeirri stefnu sem tekin hafi verið til að minnka verðbólgu og lækka vexti.


Tengdar fréttir

Uppgangur og þensla halda uppi verðbólgu og vöxtum

Gríðarlegur uppgangur í íslensku atvinnulífi með tilheyrandi miklum innflutningi á vinnuafli er einn aðaldrifkraftur verðbólgunnar. Seðlabankastjóri segir algert grundvallaratriði að hægja á eftirspurninni til ná niður verðbólgu og markmiðum nýgerðra kjarasamninga um lækkun vaxta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×