Fótbolti

„Ekkert að stressa sig of mikið á því hvað er að gerast í kringum þá“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason þykir líklegur til að byrja leikinn í kvöld.
Arnór Ingvi Traustason þykir líklegur til að byrja leikinn í kvöld.

„Það er búið að bíða eftir þessu í mjög langan tíma og núna er bara komið að þessu og það er bara geggjað og mikill spenningur,“ segir Arnór Ingvi Traustason landsliðsmaður í knattspyrnu.

Ísland mætir Ísrael í umspili um laust sæti á EM í Þýskalandi í sumar en leikurinn fer fram í kvöld í Búdapest og er í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Arnór segist vera mjög bjartsýnn.

„Við erum með góða blöndu af yngri og eldri leikmönnum. Við erum með leikmenn sem hafa gert þetta áður og svo erum við með leikmenn af nýrri kynslóð sem eru algjörlega frábærir og ég verð að fá að hrósa þeim líka. Þessir strákar lifa svo mikið í núinu og eru ekkert að stressa sig of mikið á því hvað er að gerast í kringum þá. Við erum núna að fara spila um það að komast á EM og þeir eru bara það einbeittir að það er ekkert að trufla þá of mikið.“

Ef leikurinn í kvöld endar jafn eftir venjulegan leiktíma verður framlengt og því næst vítaspyrnukeppni. Arnór er ekkert hræddur við það að taka vítaspyrnu.

„Ég er góð vítaskytta. Ég er klárlega til í að taka vítaspyrnu, bara settu mig á punktinn,“ segir Arnór en hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni.

Klippa: Ekkert að stressa sig of mikið á því hvað er að gerast í kringum þá

Leikur Ísraels og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport fimmtudaginn 21. mars 2024. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×