Innlent

Rokksafni Ís­lands verður ekki lokað

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Halldóra Fríða segir að ekki standi til að loka Rokksafni Íslands í Hljómahöll í Stapanum í Reykjanesbæ.
Halldóra Fríða segir að ekki standi til að loka Rokksafni Íslands í Hljómahöll í Stapanum í Reykjanesbæ. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ekki stendur til að loka Rokksafni Íslands í Hljómahöll í Reykjanesbæ þó það eigi að flytja bókasafn bæjarins í húsið og efla starfseminni í því með samfélagsmiðstöð.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar var gestur í vöfflukaffi hjá Framsóknarfélagi Árborgar síðasta laugardag þar sem hún fór yfir þau mál, sem eru efst á baugi í Reykjanesbæ. Fram kom í máli hennar að nú eru íbúar bæjarfélagsins um 22 þúsund og þeir þeim sífellt fjölgandi. Halldóra Fríða segir ekkert hæft í þeim orðrómi, sem hefur verið á kreiki að það eigi að loka Rokksafni Íslands í Hljómahöll, það sé fjarri öllum sannleika.

„Nei, það er ekki rétt, það stendur ekki til að loka rokksafninu. Það er auðvitað óöryggi í samfélaginu þegar fréttir berast með þeim hætti en það stendur til að gera breytingar. Hins vegar eiga að fara inn í húsið þrjár stofnanir í sambúð og það mun sennilega kalla á stækkun á húsnæðinu og annað,” segir Halldóra Fríða.

Þannig að þið ætlið ekki að skella í lás?

„Alls ekki, það stendur alls ekki til”, segir hún.

Er þetta þá bara einhver misskilningur?

„Ég veit það bara ekki, stundum skil ég ekki bara fréttaflutning af svona toga en það er allavega einhver sem kýs að segja söguna með þessum hætti,” segir Halldóra Fríða.

En hvaða starfsemi er að fara inn í Hljómahöllina?

„Nú er Rokksafnið og tónlistarskólinn í Hljómahöll og bókasafnið mun bætast þar við og þetta verður þá bara samfélagsmiðstöð, sem ég hlakka bara til að sjá vaxa og dafna og eins og ég segi, það kallar sennilega á einhverja stækkun og breytingar og við bara fögnum því,” segir Halldóra Fríða, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.

Safninu verður ekki lokað í Hljómahöll samkvæmt upplýsingum frá formanni bæjarrás Reykjanesbæjar.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×