Sport

Stal þremur milljörðum króna af fé­laginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Jacksonville Jaguars fyrir leik á móti  Carolina Panthers í NFL-deildinni. Enginn gerði sér grein fyrir því hvað var í gangi á bak við tjöldin.
Leikmenn Jacksonville Jaguars fyrir leik á móti Carolina Panthers í NFL-deildinni. Enginn gerði sér grein fyrir því hvað var í gangi á bak við tjöldin. Getty/Courtney Culbreath

Fyrrum starfsmaður bandaríska félagsins Jacksonville Jaguars er bæði búinn að missa vinnuna og á leið í fangelsi.

Amit Patel viðurkenndi að hafa stolið 22 milljónum Bandaríkjadala af Flórída félaginu þegar hann var starfsmaður þess en það jafngildir 2,99 milljörðum íslenskra króna.

Patel var dæmdur sekur í gær og þarf að dúsa í sex og hálft ár í fangelsi.

„Ég stend hér frammi fyrir ykkur, vandræðalegur, sneypulegur og vonsvikinn með eigin gjörðir. Ég get aldrei komið því fyllilega til skila hversu mér þykir þetta leiðinlegt,“ sagði hinn 31 árs gamli Patel í réttarsalnum. Hann segist hafa nú verið reglusamur í heilt ár og að hann sé að leita sér hjálpar við veðmálafíkninni. ESPN segir frá.

Patel þarf líka að borga Jaguars 21,1 milljón dala í skaðabætur og sækja fundi hjá samtökum veðmálafíkla.

„Við gáfum honum draumastarfið sitt. Við treystum honum. Við unnum með honum og deildum lífi okkar með honum. Við fórum í gegnum faraldurinn saman og upplifum hæðir og lægðir. Hann sveik okkur. Refsing hans er okkur ekkert ánægjuefni,“ sagði Megha Parekh, varaforseti félagsins.

Patel stal þessum peningi yfir þriggja og hálfs árs tímabil þar sem hann hafði yfirumsjón með kreditkortum fyrirtækisins.

Hann færði 20 milljónir dollara yfir á FanDuel og um eina milljón dollara yfir á DraftKings en þetta eru bæði veðmálafyrirtæki.

Hann notaði restina af peningum í alls konar hluti þar á meðal næstum því sex hundruð þúsund dollara hjá Apple og meira en fjörutíu þúsund samanlagt í vörur hjá Amazon og Best Buy. Hann eyddi sem sagt yfir 81 milljón króna í Apple vörur og yfir 5,4 milljónum króna í vörur hjá Amazon og Best Buy.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×