Innlent

Vextir og verð­bólga farin að bíta veru­lega á heimili og fyrir­tæki

Heimir Már Pétursson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri drýpur höfði þungt hugsi. Gunnar Jakbobsson varaseðlabankastjóri var einn um að vilja lækka vexti á vaxtaákvörðunardegi í febrúar. Næsti vaxtaákvörðunardagur er á miðvikudag í næstu viku.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri drýpur höfði þungt hugsi. Gunnar Jakbobsson varaseðlabankastjóri var einn um að vilja lækka vexti á vaxtaákvörðunardegi í febrúar. Næsti vaxtaákvörðunardagur er á miðvikudag í næstu viku. Stöð 2/Arnar

Mikil verðbólga og háir vextir á undanförnum misserum gæti leitt til samdráttar en hagvöxtur á Íslandi hefur snarminnkað á síðustu mánuðum. Seðlabankastjóri segir kjarasamninga hins vegar góð tíðindi, peningastefnan væri að virka og allt væri á réttri leið.

Partýinu sem hófst á lágvaxtatímanum er lokið. Viðvarandi mikil verðbólga og háir vextir eru farin að bíta bæði á fyrirtæki og heimili sem í vaxandi mæli halda að sér höndum í neyslu.

„Aðhald peningastefnunnar hefur aukist, væntingar eru um að vextir hafi náð hámarki, hækkandi raunvextir og vaxandi greiðslubyrði hægja á hagkerfinu og mikill fjármagnskostnaður þrengir að rekstri fyrirtækja."

Allt eru þetta skilaboð í skýrslu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans sem kynnt var í morgun.

Þar segir einnig að: „Hægt hefur á vexti ferðaþjónustunnar, hækkun verðlags á Íslandi hafi áhrif, eldsumbrotin hafa neikvæð áhrif að minnsta kosti tímabundið og afkoma íslensku flugfélaganna hefur versnað.“

Gætum endað í samdrætti

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir verðbólgu og vexti farna að reyna á heimili og fyrirtæki. Ekki væri hægt að útiloka að Íslendingar sigli inn í samdrátt, sem er eitt neikvæðasta orð hagfræðinnar.

Ásgeir Jónsson segir nýgerða kjarasamninga góð tíðindi inn í baráttuna gegn verðbólgunni og hugsunin á bakvið þá væri góð.Stöð 2/Arnar

„Það er alveg möguleiki. Það hefur verið mjög mikill hagvöxtur á síðustu þremur árum. Nú var Hagstofan að uppfæra tölur. Það var níu prósenta hagvöxtur árið 2022. Sem þýðir að hagkerfið óx um tuttugu prósent á þremur árum. Svo það er viðbúið að það hægi eitthvað á,“ segir Ásgeir.

Hagvöxtur hefur snarminnkað á undanförnum mánuðum og verður aðeins 1,9 á þessu ári samkvæmt spá Seðlabankans. Þótt flestir vonist eftir vaxtalækkunum á næstu misserum eru vextir enn háir.

Snjóhengja föstu vaxtanna hangir yfir fjórðungi heimila

Um 25 prósent heimila eru með ýmist verðtryggð eða óverðtryggð lán á föstum vöxtum til nokkurra ára, sem koma til endurskoðunar á næstu tólf til átján mánuðum með aukinni greiðslubyrði.

Hér sést hvernig hlutfall verðtryggðra og óverðtryggðra lána hefur breyst frá upphafi árs 2019 til loka árs 2023.Grafík/Sara

Á gulu súlunum á meðfylgjandi mynd sjáum við að meirihluti húsnæðislána var óverðtryggður frá árinu 2019 til 2022. Verðtryggð lán voru greidd upp eins og sést á bláu súlunum. Með hækkandi vöxtum fóru heimilin að breyta lánunum í verðtryggð lán og nýir lántakendur tóku í auknum mæli verðtryggð lán.

En heimilin hafa verið hagsýn og dregið stórlega úr neyslu og nýgerðir kjarasamningar ættu að leiða til minni verðbólgu og lækkunar vaxta á næstu mánuðum. Verkalýðshreyfingin segir boltann nú hjá Seðlabankanum.

„Það er alveg rétt. Boltinn er hjá okkur. Að ná niður þessari verðbólgu og ná verðstöðugleika. Það er bara sú ábyrgð sem Seðlabankinn mun axla í þessu,“ segir seðlabankastjóri.

Vextir farnir að reyna á þanþol heimila og fyrirtækja

Seðlabankastjóri og þrír aðrir í peningastefnunefnd ákváðu að halda meginvöxtum bankans óbreyttum hinn 7. febrúar síðast liðinn. Fimmti nefndarmaðurinn,  Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika,  vildi aftur á móti lækka þá úr 9,25 prósentum í 9 prósent. Það mátti heyra á honum á kynningarfundi nefndarinnar í morgun að hann teldi vextina farna reyna á þanþol heimila og fyrirtækja.

Ásgeir vill ekki tjá sig mikið um mögulegar vaxtalækkanir en næsti vaxtaákvörðunardagurinn er á miðvikudag í næstu viku. Síðasta spá Seðlabankans gerir hins vegar ráð fyrir að verðbólga verði komin niður í 4,1 prósent í lok þessa árs en hún er nú 6,6 prósent.

„Peningastefnan hefur virkað eins og hún á að virka. Það er að segja við erum að sjá þjóðarútgjöld minnka. Við erum að sjá, eins og kemur fram hjá okkur í dag, að lánaeftirspurn hefur minnkað. Fyrirtækin eru ekki að taka lán í sama mæli. Ekki heimilin heldur. Þetta er allt í rétta átt og við erum á réttri leið,“ segir Ásgeir Jónsson.


Tengdar fréttir

Seðlabankastjóri staðfesti sjálfstæðan samningsrétt á vinnumarkaði

Formaður VR segir seðlabankastjóra hafa staðfest að krafa breiðfylkingarinnar um forsenduákvæði varðandi þróun vaxta skerði ekki sjálfstæði Seðlabankans, enda hafi slík ákvæði verið í samningum áður. Samninganefnd VR fékk umboð trúnaðarráðs í gærkvöldi til að boða til verkfallsaðgerða.

Ásgeir segir forsenduákvæði ekki hagga Seðlabankanum

Seðlabankastjóri segir Seðlabankann ekki skipta sér af því hvernig samið er um laun á vinnumarkaði enda ekki aðili að samningunum. Í forsenduákvæðum samninga væri hins vegar eðlilegra að miða við þróun kaupmáttar og verðbólgu en vaxtastefnu bankans.

Seðlabankinn hækkar raunvexti

Seðlabankinn tók meðvitaða ákvörðun um það í morgun að hækka raunvexti með því að halda meginvöxtum sínum óbreyttum á sama tíma og verðbólga er að minnka. Seðlabankastjóri segir þetta til marks um að aðgerðir hans gegn verðbólgu hafi skilað árangri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×