Innlent

Létt­klæddir léku sér á fyrsta vor­degi ársins

Sólrún Dögg Jósefsdóttir og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Fyrsti vordagurinn var að sögn Sigga Storms í dag. 
Fyrsti vordagurinn var að sögn Sigga Storms í dag.  Vísir

Sólin lét sjá sig í höfuðborginni í dag, íbúum mörgum til mikillar gleði. Veðurfræðingur segir að þrátt fyrir að vorið sé við það að fæðast sé nóg eftir af vetrinum. 

Tökumaður leit við á Klambratúni í dag þar sem ungir sem aldnir voru mættir til að freista þess að leika sér úti þrátt fyrir að vetur konungur minnti á sig. Fáeinir freistuðu þess jafnvel að sleppa úlpunni. 

Hallgerður ræddi við Sigurð Þ. Ragnarsson, Sigga Storm veðurfræðing, í Kvöldfréttum.

„Já sæll segi ég nú bara þegar menn eru farnir að tala um sumarið núna,“ segir Siggi og bætir við að það vanti svolítið hjá Íslendingum að gefa vorinu séns. 

„Vorið þarf að brjótast fram eins og barn í fæðingu. Og nú er sjúkrabíllinn á leið á spítalann með barnið og móðurina og vorið er að starta sér. Vordagurinn fyrsti er í dag,“ segir hann.

Hiti mældist að sögn Sigga mest níu stig í dag. Í Reykjavík mældust 6,8 gráður og bjartviðri og hægviðri. Hann segir veðrið halda áfram á vesturhelmingi landsins á morgun en á austurhelmingnum og á Suðausturlandi fari að snjóa seinni partinn.

„Svo erum við dottin aftur í stífar norðlægar áttir, og þá fáum við hlé á vorkomunni. Það er akkúrat tónninn sem við eigum að gefa vorinu. Vorið þarf að fæðast.“

Siggi segir að næstu helgi sé útlit fyrir lægðagangi yfir landinu með norðanátt og snjókomu víða um land, jafnvel í höfuðborginni. 

Þannig að það er smá kuldi í kortunum ennþá?

„Þetta er hvergi nærri búið. Veturinn er svo sterkur hjá okkur. Hann er ekki búinn að gefa eftir tagl og hagldir. Þannig að það er alveg ljóst að það er vetur ennþá en vorið er vissulega að koma. Sólin er að hækka á lofti og hér í Hafnarfirði hafa verið fiskimenn að veiða við höfnina. Þannig að það er margt sem minnir á að vorið er að koma og vonin er að koma og allt er dásamlegt,“ segir Siggi að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×