Fótbolti

„Það hjálpar ekki Lamine að líkja honum við Messi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamine Yamal hefur skorað fjögur deildarmörk fyrir Barcelona á þessu tímabili en hann er aðeins sextán ára gamall.
Lamine Yamal hefur skorað fjögur deildarmörk fyrir Barcelona á þessu tímabili en hann er aðeins sextán ára gamall. Getty/Pedro Salado

Xavi Hernandez, þjálfari Barcelona, viðurkenndi að hann sæi vissulega Messi-glampa í leik táningsins Lamine Yamal en varaði engu að síður við slíkum samanburði.

Lamine Yamal tryggði Barcelona 1-0 sigur í gær með frábæru marki eftir að hafa stungið sér inn af kantinum og afgreitt boltann upp í fjærhornið.

Yamal er enn bara sextán ára gamall en hann er með fjögur mörk og sex stoðsendingar í spænsku deildinni á leiktíðinni. Hann er með þrjú mörk og tvær stoðsendingar í síðustu fjórum leikjum sínum.

Xavi sagði að það væri ósanngjarnt að bera einhvern saman við Messi en viðurkenndi að það væru líkindi með þeim.

„Ég skil samanburðinn en það hjálpar ekki Lamine að líkja honum við Messi,“ sagði Xavi á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Öllum sem líkt hefur verið við Messi hafa tapað. Það er ekki gott að bera leikmenn saman við hann,“ sagði Xavi.

„Lamine er vissulega örfættur og sækir inn á völlinn. Það kemur Messi-glampi frá honum en við erum þar að tala um besta fótboltamann sögunnar. Það er best að vera ekki að bera þá saman,“ sagði Xavi.

„Lamine gerði útslagið í kvöld. Hann átti kannski ekki sinn besta leik fyrir Barcelona en hann réði úrslitum. Ég er svo ánægður fyrir hönd þessa sextán ára stráks,“ sagði Xavi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×