Fótbolti

Bellingham í tveggja leikja bann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jude Bellingham kvartar í Gil Manzano, dómara leiks Valencia og Real Madrid.
Jude Bellingham kvartar í Gil Manzano, dómara leiks Valencia og Real Madrid. getty/Aitor Alcalde

Jude Bellingham, miðjumaður Real Madrid, hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk eftir leikinn gegn Valencia í spænsku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Bellingham skoraði undir lok leiksins á laugardaginn og hélt að hann hefði tryggt Real Madrid 3-2 sigur. En dómari leiksins, Gil Manzano, flautaði af þegar boltinn var á leið inn í vítateiginn.

Madrídingar voru æfir og Bellingham gekk býsna hart fram gagnvart Manzano, svo hart að hann fékk rauða spjaldið.

Real Madrid áfrýjaði rauða spjaldinu en hafði ekki erindi sem erfiði því Bellingham hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann. 

Enski landsliðsmaðurinn fékk einnig sex hundruð evra sekt sem jafngildir tæplega níutíu þúsund íslenskum krónum. Real Madrid fékk sömuleiðis sjö hundruð evra sekt (tæplega 105 þúsund króna).

Bellingham verður því í banni þegar Real mætir Celta Vigo á sunnudaginn og Osasuna laugardaginn 16. mars.

Hann getur hins vegar spilað þegar Real Madrid tekur á móti RB Leipzig í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Real er með 1-0 forystu eftir fyrri leikinn.

Leikur Real Madrid og Leipzig hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Vodafone Sport.


Tengdar fréttir

Fara fram á fimm ára fangelsi yfir Ancelotti

Saksóknarar á Spáni hafa sakað Ítalann Carlo Ancelotti, þjálfara Real Madrid, um skattsvik og krefjast tæplega fimm ára fangelsisdóms vegna meintra brota hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×