Fótbolti

Fær ekki að dæma um helgina eftir mis­tökin fyrir sigur­mark Liverpool

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Paul Tierney gerði mistök í aðdraganda sigurmarks Liverpool um helgina.
Paul Tierney gerði mistök í aðdraganda sigurmarks Liverpool um helgina. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Paul Tierney verður ekki með flautuna um næstu helgi þegar 28. umferð ensku úrvalsdeildarinnar fer fram.

Tierney dæmdi viðureign Nottingham Forest og Liverpool á laugardaginn síðasta þar sem úrslitin réðust þegar uppgefinn uppbótartími var liðinn. Darwin Nunez tryggði Liverpool þá dramatískan 0-1 sigur með marki á níundu mínútu uppbótartíma.

Stuttu áður en Nunez tryggði gestunum sigurinn stöðvaði Tierney leikinn vegna höfuðmeiðsla. Þegar leikurinn var stöðvaður voru heimamenn í Nottingham Forest með boltann, en þegar hann fór af stað á ný hafði Tierney látið Caoimhin Kelleher, markvörð Liverpool, fá boltann. Einni mínútu og fimmtíu sekúndum síðar tryggðu gestirnir sér sigur.

Enska dómarasambandið PGMOL hefur viðurkennt aðum mistök hafi verið að ræða og að heimamenn í Nottingham Forest hafi átt að fá boltann þegar leikur hófst að nýju.

Tierney mun þó ekki sitja aðgerðarlaus um helgina því hann verður VAR-dómari í leik Arsenal og Brentford á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×