Skoðun

Er tal­meina­fræðingur í þínu teymi?

Þórunn Hanna Halldórsdóttir skrifar

Miðvikudaginn 6. mars halda talmeinafræðingar upp á Evrópudag talþjálfunar. Á þeim degi munu talmeinafræðingar um alla Evrópu leggja sitt af mörkum til að auka vitund almennings um störf sín og stöðu sinna skjólstæðinga. Yfirskrift dagsins þetta árið er „Talmeinafræðingar í teymi“.

Talmeinafræði á Íslandi

Talmeinafræði hefur verið kennd sem framhaldsnám við Læknadeild HÍ frá 2010 og hafa útskrifast þaðan um 95 talmeinafræðingar. Skv. starfsleyfaskrá Landlæknis eru útgefin starfsleyfi til talmeinafræðinga frá upphafi 171 talsins og af þeim eru rúmlega 130 starfandi hér á landi í dag. Námsleiðin hefur því menntað um 55% af öllum talmeinafræðingum sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi og rúm 70% þeirra talmeinafræðinga sem eru starfandi í dag. Auk þess að fjölga talmeinafræðingum, hefur tilkoma námsleiðarinnar aukið verulega við íslenskar rannsóknir á viðfangsefnum talmeinafræðinga og stuðlað að útgáfu íslenskra matstækja.

Talmeinafræðingar eru heilbrigðisstétt en starfssvið þeirra snýr að greiningu og meðferð á vanda sem tengist tali, máli og kyngingu. Aðkoma talmeinafræðinga getur skipt máli á öllum æviskeiðum, hjá ungabörnum, á leik-, grunn- og framhaldsskólaaldri og hjá fullorðnum og öldruðum. Hljóðkerfisröskun, raddvandamál, kyngingartregða, málþroskaröskun DLD, málstol, vitræn tjáskiptaskerðing, heyrnarskerðing og fæðuinntökuvandi barna eru örfá dæmi um þau vandamál sem talmeinafræðingar sinna. Starf þeirra felst í því að greina vandann og leggja upp meðferðaráætlun sem getur bæði falið í sér sértæka þjálfun talmeinafræðings og/eða ráðgjöf til aðstandenda og fagaðila í umhverfi einstaklingsins. Þá starfa talmeinafræðingar oft sem hluti af teymi sem myndað hefur verið í kringum ákveðna hópa eða þjónustuform sem veitt er á stofnunum.

Talmeinafræðingar í teymi

Teymin geta verið misstór og innihaldið margar eða fáar fagstéttir en aðalstyrkurinn felst í því að virkja skjólstæðinginn sjálfan og aðstandendur hans. Greinarmunur er á fjölfaglegri og þverfaglegri teymisvinnu. Í fjölfaglegri teymisvinnu vinnur hver teymisliði að afmörkuðum hluta verkefnisins sem hann ber þá einn ábyrgð á og lausnin verður þannig summa þessara afmörkuðu hluta. Í þverfaglegri teymisvinnu horfa teymisliðar hins vegar heildrænt á verkefnið og leggja sína sérfræðiþekkingu fram og finna sameiginlega bestu lausnina. Hvor nálgunin hentar betur byggir á eðli verkefnisins en í flóknum málum getur heildræn þverfagleg nálgun þó skipt sköpum. Dæmi um starfsstöðvar talmeinafræðinga með sterka teymisvinnu eru t.d. Heyrnar- og talmeinastöð, Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins, Geðheilsumiðstöð barna, þjónustumiðstöðvar og skólaþjónustur sveitarfélaga og endurhæfingastofnanir s.s. Reykjalundur, Kristnes, Landspítali og Kjarkur endurhæfing.

Hlutverk talmeinafræðinga í þverfaglegu teymi er misjafnt eftir vanda skjólstæðingsins en snýr oft að því að varpa ljósi á hvaða áhrif tal- og málvandi eða kyngingartregða hefur á líf hans og hvernig best sé að bregðast við honum. Hlutverk talmeinafræðings í teyminu snýr að góðri samvinnu við aðra í teyminu, þ.e. að hlusta vel og miðla upplýsingum sem snúa að hans sérfræðiþekkingu. Hlutverk hans er einnig að valdefla einstaklinginn og fjölskyldu hans, m.a. með því að auka skilning þeirra á stöðunni, ýta undir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins og veita aðgang að bjargráðum og verkfærum sem styðja hann í fjölbreyttum aðstæðum. Talmeinafræðingar geta einnig verið sterkir málsvarar sinna skjólstæðinga og ættu að hafa frumkvæði að því að tala máli þeirra sem einstaklinga og sem hóps, við bæði þjónustuveitendur og ráðamenn.

Í tilefni af Evrópudegi talþjálfunar mun Félag talmeinafræðinga á Íslandi standa fyrir átaki á samfélagsmiðlum þar sem vakin er athygli á innleggi talmeinafræðinga í þverfaglegri teymisvinnu. Þá má ítreka mikilvægi þess að stofnanir og stjórnvöld líti enn frekar til talmeinafræðinga í þverfaglegri sérfræðiþjónustu innan mennta- og heilbrigðisstofnana og fjárfesti í lífsgæðum barna og fullorðinna með tal og málmein.

Höfundur er talmeinafræðingur og teymisstjóri í Kjarki endurhæfingu og aðjúnkt við Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×