Innlent

Stjórnar­sam­starfi slitið í Fjarðabyggð

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Stjórnarsamstarfið hefur staðið frá árinu 2022.
Stjórnarsamstarfið hefur staðið frá árinu 2022. Vísir/Vilhelm

Framsóknarflokkurinn í Fjarðabyggð hefur slitið meirihlutasamstarfi sínu við Fjarðalistann sem staðið hefur frá kosningum 2022. Framsóknarflokkurinn í Fjarðabyggð greinir frá þessu á síðu sinni á Facebook.

Framsóknarflokkurinn í Fjarðabyggð hefur slitið meirihlutasamstarfi sínu við Fjarðalistann sem staðið hefur frá kosningum 2022. Framsóknarflokkurinn í Fjarðabyggð greinir frá þessu á síðu sinni á Facebook.

Ákvörðunin hafi komið í kjölfar þess trúnaðarbrests sem kom fram á bæjarstjórnarfundi 27. febrúar síðastliðinn þegar lögð var fram tillaga um breytingar í skólamálum. Þá greiddi einn bæjarfulltrúi Fjarðarlistans, Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, atkvæði gegn tillögunni og sagði tillöguna ekki styrkja skólastarf í bæjarfélaginu.

Tillagan sneri að því að sameina alla grunnskóla sveitarfélagsins í eina stofnun. Sama átti við um leikskóla sveitarfélagsins.

„Mikil vonbrigði“

„Hefur vinna við þær breytingar staðið frá því í október 2023 innan starfshóps sem bæjarstjórn skipaði þá. Í þeim starfshóp var haft í forgrunni að ná þverpólitískri sátt um tillögur hópsins sem höfðu það að markmiði að efla og styrkja umhverfi fræðslumála í Fjarðabyggð til framtíðar litið,“ skrifar Framsóknarflokkurinn í Fjarðabyggð í tilkynninguna.

Þar kemur einnig fram að góð samstaða og samstarf hafi verið í störfum hópsins og oddvitar bæjarstjórnarflokkanna hafi setið í hópnum. Niðurstöður hópsins hafi verið kynntar bæjarfulltrúum líkt og stjórnendum skólanna í Fjarðabyggð áður en tillaga byggð á niðurstöðunum var afgreidd.

„Það voru því mikil vonbrigði þegar bæjarfulltrúi Fjarðalistans tók þá ákvörðun að styðja ekki málið á áðurnefndum bæjarstjórnarfundi og um leið lýsa vantrausti á alla vinnu hópsins og þá um leið alla þá sem að þeirri vinnu hafa komið frá því að hann hóf störf,“ segir í tilkynningunni.

„Í ljósi þess þá hefur Framsóknarflokkurinn í Fjarðabyggð tekið áðurnefnda ákvörðun og hefur tilkynnt oddvita Fjarðalistans um hana. Jafnframt hafa Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn í Fjarðabyggð ákveðið að taka samtal á morgun um stöðu mála í bæjarstjórn Fjarðabyggðar.“


Tengdar fréttir

Skólastjórnendur óttast að vegið verði að réttindum til náms

Skólastjórnendur í Fjarðabyggð eru ósáttir við fyrirhugaðar breytingar á skólamálum í sveitarfélaginu. Meirihluti Framsóknarflokks og Fjarðarlistans lagði fram tillögu sem sneri að því að sameina alla grunnskóla sveitarfélagsins í eina stofnun. Sama á við um leikskóla sveitarfélagsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×