Innlent

„Gjör­sam­lega mis­boðið yfir stöðunni“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins. Vísir/Ívar Fannar

Fundi dagsins í Karphúsinu er lokið og ekki hefur verið formlega boðað til þess næsta. Gert er þó ráð fyrir að fundað verði aftur á morgun. Formenn Starfsgreinasambandsins og Samiðnar eru sammála um að staðan sé flókin og erfið.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, mætti ekki til fundar hjá ríkissáttasemjara í morgun en fulltrúar Starfsgreinasambandsins og Samiðnar mættu þó til fundar í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins við breiðfylkinguna svokölluðu.

Sólveig Anna sagði í samtali við fréttastofu í dag að Samtök atvinnulífsins hafi hleypt kjaraviðræðum í uppnám í gær með því að vilja skyndilega taka upp þegar samþykktan launalið.

Það segir Sólveig Anna hafa verið gert til þess að veita hálaunahópum innan ASÍ prósentutöluhækkanir. Þá hafi SA gert kröfu um að Efling samþykki launalækkanir ákveðinna hópa.

Litlar líkur á sátt fyrir vikulok

Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, sagði stöðuna flókna þegar fréttastofa náði af honum tali eftir fundinn í dag. Litlar líkur séu á því að samningar náist fyrir vikulok og að þær fari í raun minnkandi. Hann vilji þó ekki útiloka neitt og segist áfram hafa trú á verkefninu sem snúist um að ná niður vöxtum og verðbólgu.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, er sammála því að staðan sé flókin. Aðspurður um stöðu Eflingar og hvort Starfsgreinasambandið muni áfram mæta til fundar segist hann fylgja því sem ríkissáttasemjari segi honum að gera. „En við erum samstíga í að okkur er gjörsamlega misboðið yfir þeirri stöðu sem er komin upp,“ segir Vilhjálmur sem vill þó ekki útskýra nánar hvað í því felst enda eigi viðsemjendur að vera í fjölmiðlabanni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×