Innlent

Dauð hnísa á bökkum Ölfus­ár

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Það er ekki á hverjum degi sem hræ af hnísu finnst við bakka Ölfusár.
Það er ekki á hverjum degi sem hræ af hnísu finnst við bakka Ölfusár.

Sjúkraflutningamenn á Suðurlandi ráku upp stór augu í dag þegar þeir komu auga á hræ af hnísu við bakka Ölfusár skammt frá Ölfusárbrú. Hræinu hefur verið komið til lögreglu.

„Við vorum að koma úr verkefni til Reykjavíkur. Mér verður litið niður á ána og sé dýrið liggja þarna á bakkanum, rétt á milli Olís sjoppunnar og Ölfusárbrúar,“ segir Valdimar Gunnarsson sjúkraflutningamaður í samtali við Vísi. Kollegi hans Anna Lilja Ásbjarnardóttir sendi fréttastofu myndir af hræinu.

Valdimar segir þau hafa ákveðið að stöðva bílinn og athuga hvort þau væru að sjá rétt. Í ljós kom að þarna var svo sannarlega á ferðinni hnísa þó Valdimar og Anna Lilja viti ekki hvernig dýrið komst þangað.

„Það er kannski einn möguleiki að dýrið hafi verið að elta æti þarna upp eftir. Ein kenningin er sú að dýrið hafi stokkið þarna óvart upp á ís. Ég veit það auðvitað ekki, þetta er eitthvað sem Náttúrufræðistofnun hlýtur að geta svarað,“ segir Valdimar léttur í bragði.

Hræinu var komið til lögreglu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×