Lífið

Kannast ekkert við að húsið sé til sölu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Jón Ingi botnar ekkert í frétt á mbl.is þar sem því er haldið fram að hann sé að selja íbúð sína í Hafnarfirði.
Jón Ingi botnar ekkert í frétt á mbl.is þar sem því er haldið fram að hann sé að selja íbúð sína í Hafnarfirði.

Jón Ingi Há­kon­ar­son bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði kannast ekkert við að hús hans á Nönnustíg sé til sölu, þvert á það sem haldið er fram í Smartlandi Morgunblaðsins. „Lýsandi fyrir Moggann, það er hálfur sannleikurinn,“ segir Jón Ingi.

Hálfur sannleikur, þar sem Jón Ingi og kona hans Laufey Brá Jóns­dótt­ir, sóknarprestur í Setbergsprestakalli, búa vissulega á Nönnustíg. Bara ekki í þeirri íbúð sem er nú til sölu. 

„Mér skilst að hún sé mjög falleg. Hugguleg íbúð. Þetta er frábær gata og ég vil endilega fá góða nágranna. Það er ekki oft sem losnar á Nönnustíg,“ segir Jón Ingi í samtali við Vísi en hann hefur búið þar í 20 ár og eru þau Laufey ekki að hugsa sér til hreyfings. 

Þau búa á Nönnustíg 5, en ekki 8. Sú íbúð er til sölu og er vissulega litrík:

Íbúðin er vissulega litrík og björt.

„Mér fannst þetta bara fyndið, aðallega vegna þess hve auðvelt það er að fletta því upp hvar fólk á heima. Þetta er aðeins Morgunblaðið í hnotskurn. Oft er hálfsannleikurinn verri en lygin, en kannski er þetta óskhyggja hjá þeim, maður veit aldrei.

Núna fyrir einhverra hluta sakir eru tvö hús til sölu á Nönnustíg, þannig ég vona bara að allt þetta flýti fyrir sölunni og nágrannar okkar fái gott verð,“ segir Jón Ingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×