Sport

Telja að Rússar séu að lauma inn ó­lög­legum kepp­endum á ÓL í París

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úkraínumenn börðust gegn því að Rússar og Hvít-Rússar fengju að keppa á leikunum í París í sumar en þeim varð ekki að ósk sinni.
Úkraínumenn börðust gegn því að Rússar og Hvít-Rússar fengju að keppa á leikunum í París í sumar en þeim varð ekki að ósk sinni. Getty/Artur Widak

Keppendur frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi mega ekki keppa undir fánum sinna þjóða á Ólympíuleikunum í París og það sem meira er að keppendur þaðan þurfa að uppfylla alls kyns skilyrði til að fá að keppa undir hlutlausum fána á leikunum.

Íþróttayfirvöld í Úkraínu vildu banna alla keppendur frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi en varð ekki að ósk sinni. Alþjóða Ólympíunefndin opnaði dyrnar fyrir keppendum þaðan svo framarlega sem þeir tengjast ekki innrásinni í Úkraínu á nokkurn hátt.

Úkraínumenn óttast það aftur á móti núna að Rússar séu að svindla á inntökuskilyrðum þeirra keppenda sem hafa fengið þátttökurétt hjá Alþjóða Ólympíunefndinni.

Úkraína hefur sent Thomas Bach, forseta Alþjóða Ólympíunefndarinnar, bréf samkvæmt frétt á vefsíðunni insidethegames. Þar skora þeir á Alþjóða Ólympíunefndina, IOC, til að fylgjast mjög vel og kanna vel hvort Rússar séu að fylgja þeim reglum sem þeim hefur verið sett.

Úkraínumenn benda sérstaklega á glímuna sem grein þar sem þeir telja að það sé maðkur í mysunni.

Hlutlausir keppendur frá þessum þjóðum mega nefnilega ekki hafa nein tengsl við her þjóðanna tveggja né heldur leyniþjónustuna í löndunum. Þeir mega heldur ekki hafa stutt við innrás Rússlands í Úkraínu.

Það eru nítján keppendur sem Úkraínumennirnir setja spurningamerki við en þeir telja að sé um að ræða keppendur sem hafa meðal annars stutt innrás Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×