Innlent

Eir hakkaður í spað af ó­prúttnum þrjótum

Jakob Bjarnar skrifar
Eiríkur með kaffibolla úti í Róm og fylgist með, sér til hrellingar, vefinn sinn í tómu tjóni. Og traffíkin inn á vefinn að fjara út.
Eiríkur með kaffibolla úti í Róm og fylgist með, sér til hrellingar, vefinn sinn í tómu tjóni. Og traffíkin inn á vefinn að fjara út.

Eiríkur Jónsson blaðamaður hefur haldið úti fréttavef nú í rúmlega 12 ár – þar sem sagðar eru fréttir af ýmsu kostulegu úr daglega lífinu. Frá því fyrir áramót hefur hins vegar einhver óværa komist í kerfið hjá honum sem hleypti öllu í hnút.

„Þetta er bara árás. Það kom alltaf upp einhver auglýsing frá vefmálafyrirtæki í Hull eða Grimsby. Þetta var skelfilegt, þetta var komið svo djúpt að það var ekki hægt að hreinsa þetta. Þeir voru komnir inn í kjarnann þannig að það þurfti að búa til nýjan vef. Allt farið. En það skiptir engu máli, það þarf ekkert að geyma þetta, þetta er ekki minnisvarði um mig,“ segir Eiríkur í samtali við Vísi.

Svona hefur staðan verið frá því fyrir áramót. Og stöðugt hefur umferðin farið minnkandi. Þeir sem reyndu að komast inn á vefinn í gegnum síma gátu það ekki og hurfu því úr menginu. Og hinir, sem fóru í gegnum tölvu þurftu að berjast inn á vefinn.

„Þetta hefur verið svona síðan fyrir áramót. Þetta er eins og að eiga vörubíl, keyra vörubíl í Grindavík og svo er hann allt í einu horfinn. það er ekkert grín, hvorki fyrir Grindavík né bílstjórann,“ segir Eiríkur og reynir að finna einhverja líkingu sem lýsir þessum hremmingum vel. En nú er búið að laga vefinn og Eiríkur heldur sínu striki.

Um tíma mátti Eiríkur svara fólki sem hringdi lon og don og taldi sig eiga fullan rétt á að komast inn á vefinn. En Eiríkur svaraði öllum á sama hátt: Ertu búinn að borga áskriftina?

Hann hefur nú smíðað nýtt slagorð: Fréttir fyrir fólk, ný forsíða daglega í bráðum 12 ár. Frítt inn!



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×