Körfubolti

Auð­­sjáan­­legt hversu erfið á­­kvörðunin var Bjarna

Aron Guðmundsson skrifar
Ingvar (til vinstri) og Bjarni (til hægri) mynduðu gott teymi hjá Haukum
Ingvar (til vinstri) og Bjarni (til hægri) mynduðu gott teymi hjá Haukum Vísir/Bára

Ingvar Þór Guð­jóns­son hefur verið ráðinn þjálfari Hauka í Subway deild kvenna í körfu­bolta á nýjan leik. Hann tekur við starfinu af Bjarna Magnús­syni sem þurfti að láta af störfum af heilsu­fars­legum á­stæðum.

Ingvar, sem hefur undan­farið starfað sem að­stoðar­þjálfari Bjarna hjá Haukum segir á­kvörðun hans um að láta að störfum að vissu leyti hafa komið sér á ó­vart.

„Já að vissu leyti. Við höfum rætt að­eins saman og ég vissi svo sem að hann væri orðinn svo­lítið þreyttur. Svo í rauninni hittumst við ein­hverri viku áður en hann til­kynnir liðinu á­kvörðun sína og lætur mig vita af því að hann þurfi í rauninni að stíga frá. Þar spila inn í heilsu­fars­legar á­stæður og ekki hægt að komast hjá því að taka þessa á­kvörðun.

Þá fæ ég nokkra daga til þess að hugsa málið hvað mig varðar, hvað ég myndi gera. Við Bjarni höfðum náttúru­lega starfað saman sem teymi í mörg ár fram að þessu og ekkert sjálf­gefið að maður myndi stíga upp og taka við starfi aðal­þjálfara. En að vel í­grunduðu máli fannst mér það þó vera það rétta í stöðunni.“

Þetta ferli sem leiðir að þessari á­kvörðun þinni. Var það strembið? Varstu á báðum áttum hvort þú ættir að taka við aðal­þjálfara starfinu?

„Já já og ég sagði leik­mönnum liðsins svo sem líka frá því. Að sama skapi hefði verið gríðar­lega erfitt að yfir­gefa liðið á þessum tíma­punkti. Þær sáu það líka bara, þegar að Bjarni greinir þeim frá á­kvörðun sinni, hversu erfið á­kvörðun að taka þetta var honum. 

Hún hefði líka verið það fyrir mig en á sama tíma þá lagði ég veturinn þannig upp að ég væri með Bjarna í þessu. Það að hann þurfi að stíga til hliðar var að sjálf­sögðu þess valdandi að ég hugsaði málið. Hvað ég myndi gera.“

Þekkir starf aðal­þjálfarans inn og út

Ingvar kemur ekki blautur á bak við eyrun í starf aðal­þjálfara. Hann starfaði sem slíkur, ein­mitt hjá kvenna­liði Hauka, fyrir nokkrum árum síðan og gerði liðið meðal annars að Ís­lands­meisturum árið 2018. Hann í­hugaði hins vegar vel og vand­lega hvort hann ætti að taka að sér starfið aftur á þessum tíma­punkti.

Það að hafa verið í kringum lið Hauka undan­farin ár gerir á­kvörðunina væntan­lega, að ein­hverju leyti, auð­veldari?

„Já það gerir það. Ég náttúru­lega þekki þessar stelpur mjög vel. Er búinn að þjálfa þær margar hverjar frá árinu 2010. Það var því þægi­legt að ganga inn í þetta þannig lagað. Við höfum verið að vinna vel að á­kveðnum hlutum í vetur. Og sér­stak­lega núna eftir ára­mót hefur okkur fundist spila­mennskan vera orðin betri. Bæði varnar- og sóknar­lega. Það er þá náttúru­lega bara núna í höndum okkar þjálfara­t­eymisins, sem tökum núna við, að sjá til þess að það haldi á­fram. Að við höldum á­fram að taka skref upp á við.

Ingvar Þór, nýráðinn aðalþjálfari kvennaliðs Hauka í körfuboltaVísir/Sigurjón Ólason

Haukar unnu sinn fyrsta leik undir stjórn nýs þjálfara­t­eymis á dögunum. Sigur sem sér til þess að liðið er í efri hluta Subway deildarinnar sem hefur nú verið skipt í tvennt fram að úr­slita­keppni.

Hvernig horfa næstu vikur og mánuðir við þér. Hvað viltu sjá liðið gera núna?

„Rauninni bara svipaða hluti og við höfum verið að sýna undan­farnar vikur. Æfingarnar hafa verið betri, kraft­miklar æfingar með góðri sam­keppni og við búum við það að eiga nokkuð góðan og breiðan hóp. Í þessari tví­skiptingu í efri hlutanum er fyrsta mark­mið náttúru­lega að sjá til þess að við fáum heima­vallar­rétt í úr­slita­keppninni. Það verk­efni byrjar strax í næstu viku.“

Miklar breytingar að eiga sér stað

Mál­efni körfu­knatt­leiks­deildar Hauka hafa verið mikið í deiglunni undan­farið því auk Bjarna, frá­farandi þjálfara kvenna­liðsins, hefur Bragi Hin­rik Magnús­son á­kveðið að láta af störfum hjá körfu­knatt­leiks­deild fé­lagsins og fyrir það hafði vara­for­maður deildarinnar, Tobías Svein­björns­son, greint frá á­kvörðun sinni að stíga til hliðar sem vara­for­maður.

Auð­vitað vekur það upp spurningar þegar að slík sam­bæri­leg tíðindi eiga sér stað með skömmu milli­bili en Ingvar segir þær ekkert tengjast. Þá sé ekkert mál að að­skilja það sem á sér stað inn á körfu­bolta­vellinum frá því sem er að eiga sér stað utan hans innan deildarinnar.

„Það er ekkert mál að að­skilja þetta. Vara­for­maðurinn var nánast hættur í haust og það vegna anna í öðrum störfum. Það að for­maðurinn hætti líka gerist í rauninni nokkuð áður en Bjarni tekur sína á­kvörðun að hætta þjálfun kvenna­liðsins. Þessar á­kvarðanir tengjast ekkert en til­kynningarnar koma hins vegar á sama tíma. Fólk innan fé­lagsins og stjórnarinnar hefur tekið við þeim boltum sem þarf að halda á lofti, deilt með sér verk­efnum og gert það vel.“

Ingvar stýrir liði Hauka út yfir­standandi tíma­bil en hvað tekur við svo? Gæti hann hugsað sér að stýra liðinu til lengri tíma litið?

„Ég lít á þetta núna sem tíma­bundið út þetta tíma­bil. Svo bara sjáum við til hvað verður í vor. Hvort það sé á­hugi hjá mér eða stjórn körfu­knatt­leiks­deildar Hauka á því að halda þessu sam­starfi á­fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×