Sport

Svekkjandi að missa handboltastrákana

Stefán Árni Pálsson skrifar
Anton Sveinn stefnir á það að komast í úrslit í París.
Anton Sveinn stefnir á það að komast í úrslit í París.

Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee setur stefnuna á að komast í úrslit á Ólympíuleikunum í París í sumar. Næstu mánuðir í hans lífi munu einkennast af stífum æfingum.

Anton Sveinn hefur nú þegar tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum. Hann er staddur hér á landi og tók þátt á Reykjavíkurleikunum um helgina.

„Þetta var fyrsta mótið á Ólympíutímabilinu og maður er að koma úr þungum æfingum og maður var í rauninni að fá smá stöðumat. Ég stefni á að reyna synda hratt í apríl á opna sænska meistaramótinu og síðan líka á Íslandsmeistaramótinu sem mun vera helgina eftir það,“ segir Anton og heldur áfram.

„Núna er lestin farin af stað og hún stoppar ekkert fyrr en maður er kominn til Parísar. Maður er í rauninni búinn að vera undirbúa sig fyrir svona leika í áratugi og þetta er alltaf allavega fjögurra ára ákvörðun að taka þátt á svona leikum.“

Anton ætlar sér stóra hluti á leikunum. Hann hafnaði í 2. sæti í 200 metra bringusundi á EM í desember.

„Ég er búinn að komast tvisvar sinnum í úrslita á heimsmeistaramóti og þangað mæta allir þeir bestu. Ég set rána þar og það er svona mitt raunhæfa markmið. Svo er alltaf draumurinn að komast á pall.“

Hann segir að það hafi verið leiðinlegt að sjá á eftir íslenska handboltalandsliðinu en þeim mistókst að koma sér í forkeppni Ólympíuleikanna á EM í Þýskalandi á dögunum.

„Þetta var það fyrsta sem ég hugsaði. Það er ótrúlega gaman að hafa stórt lið og þá getur myndast góður andi. Þannig að það var svekkjandi. Ég man enn þá eftir Ólympíuleikunum í London árið 2012 þegar maður var að spjalla við Guðjón Val í matsalnum, sem var svona mitt átrúnaðargoð. Svo þetta er mjög leiðinlegt að vonandi ná fleiri að komast inn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×