Innlent

Ó­venju margir dauðir auðnutittlingar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Auðnutittlingar virðast vera að drepast í hrönnum.
Auðnutittlingar virðast vera að drepast í hrönnum. Getty

Óvenju margar ábendingar hafa borist Matvælastofnun að undanförnu vegna dauðra auðnutittlinga. Ábendingarnar hafa borist af öllu landinu frá fólki sem reglulega gefur smáfuglum að éta. 

Fram kemur í tilkynningu frá MAST að stofnunin muni reyna að komast til botns í málinu á næstunni. Ábendingar sem borist hafi stofnuninni hafi iðulega snúist að einstaka eða fáeinum fuglum sem sýni veikindaeinkenni og drepist á að því er virðist tveimur til þremur dögum. 

„Ekki hefur verið sýnt fram á fjöldadauða auðnutittlinga en sumir sem fóðra smáfulga upplýsa að auðnutittlingar séu hættir að koma á fóðurstöðvar. Skýringin á því getur auðvitað einnig verið að fuglarnir hafi flutt sig á milli svæða en tilkynningar um veika og dauða fugla eru þó óvanalega margar,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni. 

Matvælastofnun muni á næstunni fá hræ af fuglum frá mismunandi landsvæðum og senda í sýnatökur og krufningu hjá Tilraunastöðinni að Keldum til að komast til botns í málinu. 

„Samkvæmt upplýsingum dýrafræðinga við Háskóla Íslands hafa álíka tilvik komið upp hér á landi áður á síðustu árum, en þó ekki í þessu umfangi. Ekki hefur áður verið kannað sérstaklega hvað veldur þessum afföllum.“

Fram kemur í tilkynningunni að auðnutittlingar haldi helst til  í birkiskógum og kjarrlendi enda er fuglinn frææta og er uppistaða fæðu hans birkifræ. Auðnutittlingar halda jafnframt til í ræktuðu skóglendi og görðum, ekki síst þar sem fræ eru gefin og eru sólblómafræ sérstaklega vinsæl hjá fuglinum. Matvælastofnun hvetur þá sem fóðra fuglana að gæta fyllsta hreinlætis og dreifa fóðri sem mest á marga staði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×