Leikjavísir

Indiana Jones kýlir aftur nas­ista í nýjum leik

Samúel Karl Ólason skrifar
Sýndir voru nokkrir leikir sem eru væntanlegir á þessu ári.
Sýndir voru nokkrir leikir sem eru væntanlegir á þessu ári.

Forsvarsmenn Microsoft og leikjafyrirtækja félagsins kynntu í gær þá leiki sem væntanlegir eru á árinu. Meðal annars var sýnd stikla úr nýjum leik um fornleifafræðinginn Indiana Jones og kafað var dýpra í aðra væntanlega leiki.

Starfsmenn MachineGames hafa unnið að stórum Indiana Jones leik um nokkuð skeið en hann var opinberaður almennilega í fyrsta sinn í gær. Leikurinn heitir Indiana and the Great Circle og á að gerast milli kvikmyndanna Raiders of the Lost Ark og The Last Crusade.

Um er að ræða fyrstu persónu ævintýraleik, þar sem Indiana þarf að leysa hinar ýmsu gátur og kýla nasista. Stundum þarf hann líka að skjóta nasista. Leikurinn notar andlit Harrison Ford, sem leikið hefur Indiana Jones, en ekki rödd hans.

Þá kom í ljós í gær að til stendur að gefa leikinn út á þessu ári en hann fékk ekki útgáfudag.

Obsidian Entertainment kynnti einnig siklu fyrir leikinn Avowed. Það er fyrstu persónu ævintýraleikur sem gerist í sama söguheimi og Pillars of Eternity leikirnir.

Í leiknum munu spilarar geta beitt sverðum, byssum og göldrum til að bjarga heiminum frá nýrri ógn.

Leikurinn fékk ekki útgáfudag en hann á að koma út í haust.

Oxide Games opinberuðu að leikurinn Ara: History Untold á að koma út í haust. Þarna er um að ræða leik sem er ekki ósvipaður Civilization leikjunum, þar sem spilarar byggja upp ríki frá grunni.

Leikurinn Senua's Saga: Hellblade 2 fékk útgáfudag og á ða koma út þann 21. maí. Þessi leikur er framhald leiksins Hellblade: Senua's Sacrifice sem kom út árið 2017. Hann fjallaði um Senua sem er stríðskona frá Orkneyjum og tilraunir hennar til að bjarga sál kærasta síns frá helvíti eftir að þorpið þeirra eru þurrkað út af víkingum.

Núna ætlar Senua að ráðast gegn víkingunum og gerist leikurinn að stórum hluta á Íslandi.

Senua þjáist af geðrænum vandamálum og fékk fyrri leikurinn mikið hrós fyrir að túlka slík vandræði vel.

Þá kynntu starfsmenn Square Enix leikinn Visions of Mana, sem er fyrsti leikurinn í seríunni í fimmtán ár. Þessi hlutverkaleikur á að koma út í sumar en hann fjallar um ungan mann sem heitir Val. Hann þarf að ná til Tree of Mana og gerist leikurinn í hálf-opnum heimi.

Að endingu opinberuðu starfsmenn Bethesda Softworks stiklu fyrir nýjan pakka Elder Scrolls Online. Stiklur þessa netspilunarleiks hafa í gegnum árin verið stórfenglegar.


Tengdar fréttir

Leikirnir sem beðið er eftir

Auk dauðans er tíminn eini fasti tilverunnar. Tíminn flæðir áfram eins og stórfljót og öll sitjum við föst í þungum straumum hans, þar til við sökkvum, eitt af öðru, og hverfum af þessu sviði sem alheimurinn er. Áður en maður veit af hafa árin svifið hjá og skilið lítið sem ekkert eftir sig, jú, nema tölvuleiki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×