Handbolti

„Mótið er alls ekki búið“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Þorgeir átti ekki sinn besta leik í kvöld.
Gísli Þorgeir átti ekki sinn besta leik í kvöld. Vísir/Vilhelm

„Veit ekki, frekar skrítinn leikur. Erum að klikka á algjörum grunnatriðum og förum illa með yfirtöluna,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson um ótrúlegt jafntefli Íslands og Serbíu í fyrsta leik EM karla í handbolta.

Ísland gerði jafntefli við Serbíu í leik sem erfitt er að setja í orð. Sóknarleikur Íslands hrökk aldrei í gírinn og var Serbía yfir þegar leikurinn var svo gott sem búinn. Á einhvern ótrúlegan hátt tókst strákunum okkar að skora tvö mörk í blálokin og tryggja sér stig sem virtist ekki vera möguleiki, lokatölur 27-27.

Miðjumaðurinn öflugi Gísli Þorgeir átti ekki sinn besta leik og átti í raun fá svör yfir slökum sóknarleik Íslands í dag.

„Köstum boltanum tvisvar eða þrisvar frá okkur í hraðaupphlaupum, fullt af einföldum verkum sem við erum að kasta frá okkur. Það vantaði stundum smá klókindi, vera kúl á því og vita hvenær við eigum að vera yfirvegaðir og hvenær við eigum að keyra tempóið upp,“ sagði Gísli Þorgeir um leik dagsins og hélt áfram.

„Mótið er alls ekki búið og gríðarlega mikilvægt stig fyrir okkur, það er staðan. Samt fullt sem við getum lært af þessum leik.“

Um sóknarleikinn

„Þetta er ekkert svakalega mikið af uppstilltum sóknum, erum að klikka á dauðafærum og erum að kasta boltanum frá okkur þegar við erum komnir í ansi góða stöðu. Fannst augnablik í leiknum, erum yfir í hálfleik, en það vantaði að halda áfram að pressa á þá.“

„Sofnum á verðinum fyrstu 15-20 mínúturnar í seinni hálfleik, leyfum þeim að komast inn í leikinn og ná forystunni. Það er ekki í lagi,“ sagði Gísli Þorgeir að endingu.

Næsti leikur Íslands er gegn Svartfjallalandi á sunnudag, 14. janúar.

Klippa: Gísli eftir Serbíuleikinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×