Skoðun

Hafnar­fjörður mun endur­skoða gjald­skrár

Rósa Guðbjartsdóttir skrifar

Vonir standa til að næstu kjarasamningar muni tryggja stöðugleika og lága verðbólgu til langs tíma. Þess vegna höfðu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði frumkvæði að því í byrjun desember að lýsa yfir mögulegri endurskoðun á gjaldskrám bæjarins. Með því móti vill sveitarfélagið hvetja til ábyrgrar samningagerðar á vinnumarkaði.

Kjarasamningsviðræður lofa góðu ef marka má upphaf þeirra og yfirlýsingar forystufólks Samtaka atvinnulífsins og stéttarfélaga um sameiginlegan vilja til að ná niður vöxtum og verðbólgu, sem er hin eina sanna kjarabót heimila og fyrirtækja. Náist skynsamlegir samningar á almenna vinnumarkaðinum þá þarf opinberi vinnumarkaðurinn, ríki og sveitarfélög og samningsaðilar þeirra, að fylgja í kjölfarið. Einungis þannig næst svokölluð þjóðarsátt. Þótt þær samningaviðræður séu ekki hafnar hefur verið kallað eftir því að sveitarfélögin hækki gjaldskrár umtalsvert minna en ráðgert er í nýsamþykktum fjárhagsáætlunum þeirra. Sveitarfélögin ákveða sínar gjaldskrár hvert fyrir sig. Sum þeirra hækka oftar gjaldskrár sínar en um áramót. Má þar til dæmis nefna Reykjavík. Þess vegna segir samanburður á gjaldskrárhækkunum um áramót ekki alla söguna. Réttara væri að bera saman gjaldskrárhækkanir á ársgrundvelli.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti nýverið að hækka gjaldskrár sínar um 9.9% til þess að mæta verðlags- og launahækkunum umfram áætlanir nýliðins árs og væntanlegri verðbólgu þessa árs. Margir þjónustusamningar voru endurnýjaðir á síðastliðnu ári sem leiddi til hækkunar á útgjöldum bæjarins. Þá standa einnig fyrir dyrum fleiri stór útboð á komandi vikum og mánuðum. Vegna mikillar verðbólgu undanfarin tvö ár er viðbúið að verð í þeim útboðum muni hækka. Með gjaldskrárhækkuninni um áramótin er því að hluta til verið að bregðast við því. Þróun verðlags og launakostnaðar veldur því jafnframt að kostnaðarhlutdeild bæjarins á móti notendum þjónustu er almennt að aukast þrátt fyrir gjaldskrárhækkanir. Þá er samsetning leikskólagjalda að breytast umtalsvert og gjöldin að lækka svo um munar frá því sem nú er hjá stórum hópi notenda þjónustunnar.

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 4. desember síðastliðinn var það skýrt tekið fram og bókað í fundargerð að komið geti til endurskoðunar á gjaldskrám gefi niðurstöður kjarasamninga tilefni til. Hafnarfjarðarbær var því eitt fyrsta sveitarfélag landsins til að lýsa því formlega yfir að vera tilbúið til endurskoðunar og breytinga á gjaldskrá. Við það loforð munum við standa. En þangað til er það óábyrgt að afsala sér fyrirfram tekjum sem eiga að standa undir kostnaði við þjónustu sveitarfélagsins.

Höfundur er bæjarstjóri í Hafnarfirði. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×