Körfubolti

„Mér hefur aldrei liðið jafn­vel og í dag“

Arnar Skúli Atlason skrifar
Haukur Helgi virðist vera að komast í sitt gamla form
Haukur Helgi virðist vera að komast í sitt gamla form Vísir/Anton Brink

Álftnesingar sóttu góðan sigur norður yfir heiðar í kvöld gegn Íslandsmeisturum Tindastóls, lokatölur á Sauðarkróki 68-80. Haukur Helgi Pálsson fór fyrir stigaskori gestanna með 22 stig og virðist vera óðum að finna sitt gamla form eftir þrálát meiðsli.

Þrátt fyrir að Haukur hafi skorað mikið í kvöld sagði hann að varnarleikur Álftaness hefði gert gæfumuninn í kvöld.

„Vörn, við heldum þeim í 68 stigum á heimavelli er frábært sko, við getum ekki beðið um meira, þeir komu með áhlaupin sín sem þeir gera og við náðum að slökkva í því.“

„Þeir eru með fjóra leikmenn í plús tíu stigum, en við vorum að frákasta mjög vel, þeir voru ekki að ná sóknarfráköstum og ná þessum „second chance“ sóknum. Við náðum svolítið að hlaupa á þá líka , þeir vilja hlaupa og skora hraðar og auðveldar körfur við náðum að stoppa það svolítið. Ekki það að ég sé búinn að skoða tölfræðina en við héldum haus allan tímann í þeirra áhlaupum.“

Alvöru sóknarleikur frá þér í kvöld, tuttugu og tvö stig. Er skrokkurinn góður og þú í hörkustandi?

„Já, mér leið mjög vel í þessum leik, mér hefur aldrei liðið jafnvel og í dag, ég sagði einmitt í hálfleik: „Langt síðan mér hefur liðið svona“, en ekki bara það, ég fékk mín skot og var að setja þau í dag og ég gæti klikkað úr þeim öllum í næsta leik. Ég er mjög sáttur og fullt að leikmönnum að skila sínu og þetta var mjög gott.“ - Sagði Haukur Helgi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×