Fótbolti

Juventus flaug í átta liða úr­slit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Juventus vann vægast sagt öruggan sigur í kvöld.
Juventus vann vægast sagt öruggan sigur í kvöld. Vísir/Getty

Juventus tryggði sér sæti í átta liða úrslitum ítölsku bikarkeppninnar í knattspyrnu með öruggum 6-1 sigri gegn Salernitana í kvöld.

Gestirnir í Salernitana komust þó í forystu strax á fyrstu mínútu með marki frá Chukwubuikem Ikwuemesi áður en Fabio Miretti jafnaði metin fyrir heimamenn rétt rúmum tíu mínútum síðar.

Andrea Cambiaso sá svo til þess að Juventus var með forystuna í hálfleik er hann kom boltanum í netið á 35. mínútu og staðan því 2-1 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Daniele Rugani skoraði þriðja mark heimamanna á 54. mínútu áður en Dylan Bronn varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og koma Juventus þar með í 4-1.

Heimamenn voru þó hvergi nærri hættir því Kenan Yildiz og Timothy Weah bættu sínu markinu hvor við áður en yfir lauk og niðurstaðan varð því öruggur 6-1 sigur Juventus.

Juventus er þar með á leið í átta liða úrslit ítölsku bikarkeppninnar á kostnað Salernitana sem situr eftir með sárt ennið. Juventus mætir Frosinone í átta liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×