Lífið

Gypsy Rose losnar úr steininum og gefur út bók

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gypsy Rose Blanchard til vinstri og Joey King í hlutverki hennar í The Act til hægri.
Gypsy Rose Blanchard til vinstri og Joey King í hlutverki hennar í The Act til hægri. Hulu

Gypsy Rose Blanchard sem komst í heimsfréttirnar fyrir að hafa lagt á ráðin um að myrða móður sína bíður þess nú að losna úr fangelsi. Hún hefur afplánað rúm sjö ár fyrir aftan lás og slá en verður látin laus í dag.

Gypsy, nú 32 ára, var dæmd í tíu ára fangelsi í júlí 2016 fyrir aðild að morðinu á móður hennar Clauddine Dee Dee Blanchard. Þáverandi kærasti Gypsy, Nicholas Godejohn, fékk lífstíðardóm fyrir að stinga Dee Dee til bana.

Saga Gypsy varð að vinsælu sjónvarpsseríunni The Act. Talið er að Gypsy hafi verið fórnarlamb móður sinnar sem hafi látið líta út fyrir að dóttir hennar ætti við alvarleg veikindi að stríða.

Sjúkraskrárnar hafi týnst

Gypsy var þvinguð til að nota hjólastól í barndómi og gangast undir óþarfa aðgerðir í læknisfræðilegum tilgangi. Dee Dee var sögð hafa skömmu eftir fæðingu Gypsy haldið því fram að dóttir hennar þjáðist af kæfisvefni. Þegar Gypsy var átta ára hélt móðir hennar því fram að hún glímdi við hvítblæði og vöðvarýrnun sem krafðist þess að hún notaði hjólastól og fengi næringu í æð. 

Mæðgurnar fluttu frá Louisiana til Aurora í Missouri í september 2005 eftir að Dee Dee hélt því fram að þær hefðu verið fórnarlömb fellibylsins Katrínar sem lagði New Orleans í rúst. Hún sagði sjúkraskrár dóttur hennar hafa týnst í fellibylnum.

Mæðgurnar söfnuðu háum fjárhæðum í formi styrkja og var boðið í ferðalög vegna veikinda Gypsy. Þá byggðu góðgerðarsamtök vestan hafs hús fyrir mæðgurnar með góðu aðgengi fyrir hjólastóla.

Það var svo í júní 2015, þegar Gypsy var 23 ára, sem hún fékk kærasta sinn Nicholas Godejohn til þess að ráða móður sinni bana. Þau höfðu kynnst á kristilegri stefnumótasíðu. Gypsy tjáði lögreglu að Godejohn hefði farið heim til Dee. Hann hefði verið með hanska, hníf og límband sem Gypsy hefði útvegað. Hún hefði falið sig inni á baðherbergi á meðan Godejohn stakk móður hennar sautján sinnum í svefnherbergi hennar. Eftir morðið flúði kærustuparið heim til sín þar sem þau voru handtekin nokkrum dögum síðar.

Bók handan við hornið

Gypsy samdi við ákæruvaldið og þurfti ekki að bera vitni í dómssal. Hún var meðal vitna þegar mál Godejohn fór fyrir dóm og sagðist hafa átt hugmyndina að drepa móður hennar. Hún hefði haldið ástarsambandi þeirra Godejohn leyndu því móðir hennar hefði viljað ráða öllu í lífi hennar.

Þá sagðist Gypsy hafa komist að því þegar hún var nítján ára að hún væri ekki veik eins og móðir hennar hafði haldið fram. Hún fékk svo nánari upplýsingar um heilsu sína eftir að hafa verið handtekin.

Verjendur Godjohn héldu því fram að hann hefði drepið Dee Dee til að forða Gypsy frá ofbeldi af hennar hálfu. Þá væri hann yfir sig ástfanginn af Gypsy.

Fangelsismálayfirvöld í Missouri staðfestu við Time að Gypsy yrði látin laus 28. desember. Hún hyggur á útgáfu bókarinnar Conversations on the Eve of Freedom þann 9. janúar næstkomandi.

ABC News hefur fjallað ítarlega um málið og má sjá umfjöllunina í fjórum hlutum hér að neðan. Þar er meðal annars rætt við Gypsy, föður hennar og verjanda auk fólks sem sýndi mæðgunum kærleika og veitti fjárstuðning vegna meintra veikinda.


Tengdar fréttir

Gyp­sy Rose byrjuð aftur með unnustanum

Gypsy Rose Blanchard, ung kona sem skipulagði morð móður sinnar sem hafði neytt hana árum saman til að þykjast vera langveik, er byrjuð aftur með unnusta sínum en parið sleit trúlofuninni stuttlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×