Innlent

Hefð­bundið helgi­hald þrátt fyrir snjó­flóða­hættuna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ívar segir snjóflóðahættuna lítil áhrif hafa haft á helgihaldið.
Ívar segir snjóflóðahættuna lítil áhrif hafa haft á helgihaldið.

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum var aflétt síðdegis í dag. Björgunarsveitarmaður á Flateyri segir snjóþyngslin ekki hafa aftrað jólahaldi, og fólk í bænum hið rólegasta yfir öllu saman. 

Í sjónvarpsfréttum okkar í gær var rætt við björgunarsveitarmann á Flateyri sem kippti sér lítið upp við að halda jólin innilokaður á Flateyri. Veðrinu slotaði síðdegis í gær.

„Hér var bara allt með ró og spekt. Það var komið blíðuveður um fjögurleytið í gær. Bara blankalogn og snjókoma,“ segir Ívar Kristjánsson, varaformaður Sæbjargar á Flateyri.

Ákveðið var í morgun að viðhalda óvissustigi vegna snjóflóða á Vestfjörðum í morgun vegna óvissu í veðurkortunum, en óvissustig var afnumið á Norðurlandi. Síðdegis í dag var ákveðið að gera slíkt hið sama á Vestfjörðum, þegar veðurspár tóku á sig skýrari mynd.

„Ég ákvað bara að vakna í morgun og sjá hvernig veðrið væri og það var bara blíða. Nú er bara verið að gera skautasvellið klárt, þannig að fólk komist á skauta.“

Snjóþyngslin í gær öftruðu ekki jólahaldinu hjá Ívari, frekar en öðrum í bænum.

„Fólkið hér á Flateyri hafði ekki áhyggjur held ég, allavega ekki neinn sem ég hef frétt af. Það var bara voða rólegt og ánægt að halda jólin,“ segir Ívar.

Flestir vegir á Vestfjörðum voru lokaðir eða ófærir í gær. Talsvert greiðfærara er orðið um svæðið en þó eru einhverjir vegir enn ófærir. Á þeim vegum sem nú eru opnir er víða talsverð hálka. Hér má nálgast upplýsingar um færð á vegum á landinu öllu. 


Tengdar fréttir

Spenntur að halda jólin innilokaður og í friði

Snjóflóð hafa fallið í grennd við bæi og helstu vegir eru ýmist ófærir eða lokaðir á Vestjörðum. Björgunarsveitarmaður á Flateyri segir alls ekkert ferðaveður á svæðinu. Hann kippir sér ekkert upp við að halda jólin innilokaður. Óvissustig er áfram í gildi en veðrið á að vera gengið niður að mestu í kvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×