Fótbolti

Girona mis­steig sig og gæti misst topp­sætið í kvöld

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Real Betis og Girona skiptu stigunum á milli sín í kvöld.
Real Betis og Girona skiptu stigunum á milli sín í kvöld. Vísir/Getty

Girona þurfti að sætta sig við 1-1 jafntefli er liðið heimsótti Real Betis í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Girona, sem óvænt trónir á toppi deildarinnar eftir 18 leiki í spænsku úrvalsdeildinni, var með tveggja stiga forskot á Real Madrid í öðru sætinu fyrir leik kvöldsins.

Artem Dovbyk skoraði fyrsta mark leiksins í kvöld þegar hann kom Girona yfir með marki úr vítaspyrnu á 39. mínútu eftir að Aitor Ruibal hafði verið dæmdur brotlegur innan vítateigs.

Heimamenn jöfnuðu þó metin með marki frá German Pezzella þegar aðeins um þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og þar við sat. Niðurstaðan því 1-1 jafntefli og Girona er nú með 45 stig eftir 18 leiki, þremur stigum meira en Real Madrid sem situr í öðru sæti og á leik til góða síðar í kvöld.

Real Betis situr hins vegar í sjöunda sæti með 28 stig eftir fjögur jafntefli í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×