Sport

Varð fyrir býfluguárás í Ally Pally

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ross Smith eftir að býflugan stakk hann.
Ross Smith eftir að býflugan stakk hann.

Enski pílukastarinn Ross Smith lenti í heldur óskemmtilegri uppákomu eftir sigurinn á Niels Zonneveld, 3-1, á HM í Alexandra höllinni í London í gær.

Smith var nefnilega stunginn af býflugu þegar hann var í viðtali við Sky Sports á sviðinu í Ally Pally eftir leikinn gegn Zonneveld.

Býflugan sýndi Smith enga miskunn og hann greindi seinna frá því að hann hefði verið stunginn í þrígang.

„Ég verð eins og Fílamaðurinn á morgun [í dag]. Flugan stakk mig þrisvar og flaug svo í burtu,“ sagði Smith sem snýr aftur á HM eftir jól. Hann kveðst eiga talsvert inni þrátt fyrir nokkuð öruggan sigur á Zonneveld í gær.

„Þetta var ekki frábær leikur og ég spilaði ekki nálægt því eins vel og ég get. Ég reyndi að koma mér í gang en það var mjög erfitt. Síðustu dagar hafa verið stressandi því allir vilja komast áfram. Núna slaka ég á og verð vonandi betri eftir jól.“

Býflugan var reyndar ekki hætt og réðist líka á heimsmeistarann fyrrverandi, Peter Wright, eins og sjá má hér fyrir neðan.

Smith komst í 32-manna úrslit á HM 2022 og 2023 en freistar þess nú að komast enn lengra. Hann er í 16. sæti heimslistans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×