Skoðun

Gríðar­legt tap sveitar­fé­laga af orku­vinnslu

Haraldur Þór Jónsson skrifar

Útreikningar KPMG sýna fram á að árið 2022 var beint fjárhagslegt tap Skeiða- og Gnúpverjahrepps 43 milljónir af þeirri orkuvinnslu sem á sér stað í sveitarfélaginu. Það er tap uppá tæplega 75 þúsund krónur á hvern íbúa. Til að setja hlutina í samhengi, þá væri það eins og Reykjavíkurborg myndi tapa rúmlega 10 milljörðum á orkuvinnslunni miðað við íbúafjölda Reykjavíkurborgar.

Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur mest raforka verið framleidd á Íslandi. Uppsett afl virkjana í sveitarfélaginu er um 500 MW og dugar orkuframleiðslan fyrir öll heimili og fyrirtæki á Íslandi, að undanskilinni stóriðjunni.

Þeir sem lesa þennan inngang hugsa líklega núna að þetta geti ekki staðist, en því miður eru þetta tölulegar staðreyndir sem orsakast af þeirri lagaumgjörð sem er um orkuvinnslu á Íslandi í dag og þá staðreynd að orkuvinnsla er eina samkeppnisatvinnugreinin á Íslandi í dag sem er undanþegin lögboðnum tekjustofnum sveitarfélaga.

Í dag skilaði undirritaður inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um endurmat á virkjunarkostum úr 3. áfanga rammaáætlunar. Í umsögninni er fjallað um samfélagsleg áhrif orkuframleiðslu á nærsamfélögin og útskýrt hvers vegna Skeiða- og Gnúpverjahreppur ber beint fjárhagslegt tjón af orkuvinnslunni, tjón sem uppsafnað hleypur á milljörðum.

Meirihluti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps er hlynntur áframhaldandi uppbyggingu orkuvinnslu í sveitarfélaginu. Það sýndi sveitarstjórn í verki með því að gefa út framkvæmdaleyfi til byggingar Hvammsvirkjunar þann 14. júní 2023 þrátt fyrir að Hvammsvirkjun skili engum beinum tekjum til sveitarfélagsins í núverandi lagaumgjörð. Ríkisstjórnin og þingmenn Alþingis þurfa að gera sér grein fyrir því að ekki verður unnt að halda áfram uppbyggingu frekari orkuvinnslu í núverandi skattaumhverfi og treystir sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps á það að boðaðar breytingar í skattlagningu orkuvinnslu verði til þess að skapa sátt við nærumhverfi orkuvinnslu í framtíðinni. Samstarf ríkis og sveitarfélaga um aukna græna orkuvinnslu mun leggja grunninn að fullum orkuskiptum og efnahagslegu sjálfstæði Íslands í orkumálum til framtíðar.

Undirritaður er oddviti- og sveitarstjóri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem mest raforka hefur verið framleidd í sögu Íslands.

Höfundur er sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×