Lífið

Ljót, skrýtin og skemmti­leg jóla­tré til styrktar góðu mál­efni

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Lísa Kristjánsdóttir segir söluna vera tilraun til að bæta í miðbæjarflóruna og styrkja gott málefni.
Lísa Kristjánsdóttir segir söluna vera tilraun til að bæta í miðbæjarflóruna og styrkja gott málefni. Margrét Erla Maack

Kaffihúsið og vínstofan Kramber stendur fyrir sölu á misheppnuðum, ljótsætum, skrýtnum og einstökum jólatrján á pallinum fyrir utan. Allur ágóði rennur óskiptur til Konukots.

Lísa Kristjánsdóttir, annar eigandi Krambers, segist hafa viljað bæta í miðbæjarflóruna og gera eitthvað skrýtið og skemmtilegt.

„Við fengum grysjunartré sem eru fyndin, ljót, skrýtin og skemmtilegt. Þetta eru svona jólatré sem enginn vill. Og við erum að selja þau á fimm þúsund krónur stykkið til styrktar Konukoti,“ segir hún í samtali við fréttastofu.

Eitt þessara trjáa væri í það allra minnsta góður ísbrjótur.Margrét Erla Maack

Trén eru alls konar á stærð og í laginu og gætu jafnvel nýst sem tímabundnar pottaplöntur að sögn Lísu.

„Sum eru alls ekki góð öðru megin en geta þá kannski verið flott í horni. Önnur eru bara beinlínis ljót. Sum eru mjög lítil og væri mögulega hægt að setja í vasa. Þetta er svona mótvægi við hinu fullkomna jólatré sem við erum með á pallinum,“ segir hún.

Hugmyndin er sótt til fjölskylduvinkonu Lísu sem keypti ein jólin svo ljótt tré að það var skemmtiefni í öllum jólaboðum þau jólin. Í Kramhúsinu um þessar mundir er það sem Lísa kallar „jólasjopp og sullerí“ þar sem boðið er upp á léttar veigar og „allt það sem hugurinn girnist fyrir konur.“

Hver segir tré þurfi topp til að teljast fallegt?Margrét Erla Maack





Fleiri fréttir

Sjá meira


×