Sport

„Það hefur verið stígandi í þessu hjá okkur í allan vetur og það þarf að halda á­fram“

Andri Már Eggertsson skrifar
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var ánægður með sigurinn og þá staðreynd að FH endi árið á að vera í efsta sæti deildarinnar.

„Mér fannst við vera með frumkvæðið allan leikinn. Án þess að ná að slíta þá frá okkur. Við áttum okkur alveg á því að við vorum að spila við Val sem er frábært lið, “ sagði Sigursteinn í samtali við Vísi eftir leik.

FH byrjaði leikinn betur og komst snemma í forystu. Sigursteinn hrósaði varnarleiknum sem að hans mati var góður í kvöld.

„Við náðum að byrja vel varnarlega og bjuggum strax til forskot en svo var það ekkert mikið meira en það.“

Þrátt fyrir að Valur náði aldrei að komast yfir eftir að FH jafnaði í 1-1 spiluðu gestirnir ágætlega á köflum sem gerði FH erfitt fyrir.

„Valur er með frábært lið og frábæran leikstjórnanda sem er með góða stjórn á sínu liði og við þurftum að hafa ógeðslega mikið fyrir hlutunum.“

Næsti leikur FH er í febrúar á næsta ári og Sigursteinn var ánægður með þá staðreynd að liðið sé á toppnum og tapaði aðeins einum leik fyrir áramót.

„Við byrjuðum mótið ekkert frábærlega en mér finnst hafa verið stígandi í þessu hjá okkur í allan vetur og það þarf að halda áfram.“

„Maður er aldrei sáttur þegar að maður tapar en ég var sáttur með viðbrögðin eftir þau töpuðu stig sem við höfum fengið í vetur. Eftir að við gerðum jafntefli við Stjörnuna höfum við verið mjög öflugir,“ sagði Sigursteinn Arndal að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×