Fótbolti

Fimm detta út úr byrjunar­liðinu fyrir Dan­merkur­leikinn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir í leik á móti Þýskalandi í Þjóðadeildinni.
Alexandra Jóhannsdóttir í leik á móti Þýskalandi í Þjóðadeildinni. Getty/Brynjar Gunnarsson

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, gerir talsverðar breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn á móti Danmörku í Þjóðadeild kvenna í fótbolta í kvöld.

Þorsteinn tekur nefnilega fimm leikmenn út úr byrjunarliðinu frá því úr leiknum á móti Wales á föstudaginn en íslenska liðið tryggði sér þá þriðja sætið í riðlinum með 2-1 sigri.

Leikmennirnir sem koma inn í byrjunarliðið eru þær Fanney Inga Birkisdóttir, Guðný Árnadóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Agla María Albertsdóttir og Diljá Ýr Zomers.

Þær sem detta út eru Telma Ívarsdóttir, Sandra María Jessen, Ingibjörg Sigurðardóttir, Hildur Antonsdóttir og Hafrún Rakel Halldórsdóttir. Telma tekur út leikbann vegna tveggja gulra spjalda í keppninni.

Fanney Inga er að spila sinn fyrsta A-landsleik í kvöld. Alexandra Jóhannsdóttir er líka að byrja sinn fyrsta leik í þessari Þjóðadeild. Alexandra hefur komið inn á sem varamaður í síðustu þremur leikjum en fær nú tækifærið.

Diljá Ýr byrjaði fyrsta leikinn í keppninni en hefur ekki byrjað fleiri. Hún kom hins vegar inn á sem varamaður á móti Wales og gulltryggði sigurinn með glæsilegu marki.

Þetta þýðir jafnframt að aðeins fimm leikmenn náðu að byrja alla leiki liðsins í Þjóðadeildinni í ár því þær Telma Ívarsdóttir, Sandra María Jessen og Hildur Antonsdóttir höfðu byrjað hina fimm.

Leikmennirnir fimm sem hafa alltaf verið í byrjunarliðinu eru Glódís Perla Viggósdóttir, Guðrún Arnardóttir, Hlín Eiríksdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Selma Sól Magnúsdóttir.

  • Byrjunarliðið hjá Íslandi:
  • Fanney Inga Birkisdóttir
  • Guðný Árnadóttir
  • Guðrún Arnardóttir
  • Glódís Perla Viggósdóttir
  • Sædís Rún Heiðarsdóttir
  • Selma Sól Magnúsdóttir
  • Alexandra Jóhannsdóttir
  • Karólína Lea Vilhjálmsdóttir
  • Agla María Albertsdóttir
  • Hlín Eiríksdóttir
  • Diljá Ýr Zomers



Fleiri fréttir

Sjá meira


×