Sport

McGregor segir Gunnar eiga heiðurinn af kara­te­stílnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Conor McGregor er litríkur karakter. Hann lærði af okkar manni.
Conor McGregor er litríkur karakter. Hann lærði af okkar manni. Samsett/Getty

Conor McGregor svaraði aðdáendum sínum á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, í gær. Írinn ógurlegi nefndi þar Gunnar Nelson sem mikinn áhrifavald á sínum ferli.

Conor McGregor er þekktasti MMA-bardagamaður heims en hann er fyrsti bardagamaðurinn sem hefur verið handhafi tveggja meistaratitla UFC í mismunandi þyngdarflokkum á sama tíma. Þá hefur hann einnig keppt í hnefaleikum en bardagi hans gegn Floyd Mayweather fékk gríðarlegt áhorf á sínum tíma.

Í gær gátu aðdáendur McGregor spurt hann spurninga á samfélagsmiðlinum X. Einn aðdáandi spurði McGregor að því hvað hafi orðið til þess að Írinn hafi byrjað að nýta sér karatestílinn sem hefur verið einkennandi fyrir hann á ferlinum.

Í svari sínu segir McGregor að Gunnar Nelson eigi heiðurinn og hafi byrjað að nota stílinn í æfingabúðum þeirra. McGregor hefur verið æfingafélagi Gunnars Nelson í lengri tíma og eru þeir góðir vinir.

„Það var ótrúlega erfitt að verja sig gegn þessu þannig að ég byrjaði að nýta mér stílinn sjálfur. Ég bætti við ýmsu nytsamlega og sleppti því sem var það ekki. Síðan bætti ég við einhverju sem var einstakt fyrir mig. Bruce Lee endurfæddur,“ skrifar McGregor.

Gunnar keppti síðast í UFC í mars á þessu ári þegar hann bar sigurorð af Bryan Barberena. Þá hrósaði Conor Gunnari í hástert og sagði hann einn besta bardagamann sem hann hafi kynnst.

McGregor mætir aftur til leiks í UFC þegar hann mætir Michael Chandler. 

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×