Lífið

Dag­bók Bents: Há­tíðin í ár góð - kannski er djamm bara snilld?

Dagbók Bents er orðinn fastur liður hjá mörgum lesendum Vísis á Iceland Airwaves ár hvert. Í þessum þriðja og síðasta pistli fer hann yfir laugardagskvöldið.
Dagbók Bents er orðinn fastur liður hjá mörgum lesendum Vísis á Iceland Airwaves ár hvert. Í þessum þriðja og síðasta pistli fer hann yfir laugardagskvöldið. Grafík/Hjalti

Ég verð að ná Fókus. Þær unnu Músíktilraunir í ár og eru að spila í Hinu húsinu. En þegar ég mæti í Pósthússtrætið man ég að það er auðvitað mathöll þarna núna og Hitt húsið komið upp í Árbæ.

Ég elska Árbæinn, en kommon.

Ég lagði bílnum í stæði sem kostar meira en bíllinn svo ég verð að nýta tímann vel. Hljómsveitin Emma er Djúpinu og eru að tengja í rólegheitunum. Klukkan er núna 20 mínútur yfir, það er ennþá verið að leysa úr snúruflækju og hljómborðsleikarinn segir hálfan brandara um tannlækna. Hvernig getið þið grínast á tímum svona hárra bílastæðagjalda?

Þetta eru alvöru hippar. Gítarleikarinn er í kjól með loðna leggi og hljómborðsleikarinn er klæddur í teppi og er í götóttum sokkum. Það er Kumbaya stemning og ég fæ það á tilfinninguna að þetta hafi verið samið á Ayahuascha. 

Hljómsveitin Emma á Airwaves.Bent

Söngvarinn lemur á litla trommu sem hann er með á milli lappana og syngur með titrandi röddu: 

„You get closer than you should. Too close for comfort.“

Gæti verið beint til þessa tveggja gæja sem standa svo nálægt hljómsveitinni að ég heyri þá anda í gegnum hljóðnemann. Vilja greinilega vera nálægt þessum stóru tám sem eru að gæjast út úr sokkunum á hljómborðsleikaranum.

Davíð, trommarinn í Kaleo, er með plástur á puttanum sem hann fékk við að skera blaðlauk. Greinilega alvöru djamm í gær. Hann segir að hann geti samt beitt kjuðanum. Hann er að spila með hljómsveitinni Bear the Ant hér á 12 tónum. Þetta er yndisleg tónlist. Það er gjörsamlega stappað og ég stend á mjög völtum klappstól og reyni að sjá í Bjössa söngvara (hann er huggulegur maður). Ef ég slasa mig er Dabbi allavega með plástra.

Stebbi Steph er að opna sýningu í Newport Editions í Gallery Port og segist vera kraminn undir hæl listagyðjunnar. Þetta er víst 11. Kaflinn í merkri ævintýrasögu President Bongo. En í rauninni er þetta bara eitt plakat og lag á vinyl. En myndin er helvíti sexí og tónlistin líka. Ég treð mér sjálfur inn á ljósmynd því dagbókin í dag verður sjálfhverf.

Stebbi Steph opnaði sýningu í Newport Editions í Gallery PortBent

Fókus hefur greinilega sloppið úr Árbænum eins og undirritaður því þær eru að spila á Jörgensen. Ég á reyndar flug eftir hálftíma en legg ólöglega, treð mér í gegnum þvöguna og næ einu lagi. Ég hugsa strax um 4 Non Blondes. Gæti verið hatturinn. Söngkonan lítur út fyrir að versla í Rokk og rósum. Þessar athugasemdir verða að duga því ég er að missa af flugi.

Fókus unnu Músíktilraunir í ár.Bent

Á miðvikudaginn voru Airwaves tónleikar á Keflavíkurflugvelli og ég var að vonast eftir einhverju svipuðu hér í bænum. Þarna er stelpa í kraftgalla að snúa sér í hringi en ég held að það sé ekki Airwaves skemmtiatriði (bara smá skrítin). Ég sé Svavar Knút með ukulele tösku en hann opnar hana ekki. Kannski fyrir bestu.

Gus Gus eru að spila í Hofi á Akureyri og ég er mættur. Þetta er fyrra sjóið af tveimur og eflaust það rólegra. Þetta eru sitjandi tónleikar og engir drykkir inni í sal, ekki beinlínis Berghain. Til að byrja með er bara ein hress kona sem stendur og dansar eins og magadansmær. Daníel Ágúst er með sitt signature svægi þó hans sé klæddur eins og barn sem á að skíra. Syngur og dansar ógeðslega vel. Margrét í Vök er í bútasaumsgalla og auðvitað er Veiran á háum hælum.

GusGus tróðu upp í Hofi á Akureyri.Bent

Þegar hittararnir hljóma standa flestir upp og dansa á sínu einka dansgólfi fyrir framan sætið sitt. Svo sest það aftur. Þau þurfa semsagt að keyra upp stemninguna og plata liðið upp úr sætunum aftur og aftur. Stóladans. En þau eru með helling af hitturum, stóra skjái með töff vídjóum og geggjað ljósasjó, svo örlitlu dansgólfin fyllast á fimm mínútna fresti.

Það eru nokkrir fýlupúkar sem sitja allan tímann en þeir sjá þá ekkert á sviðið þegar fólkið fyrir framan þá stendur og dansar. Gott á þá.

Óskarsverðlaunahafinn Hauschka er að spila í Gamla bíói og ég horfi á það í streymi. Nærmynd af höndum að snúa tökkum. Hann er fyrst og fremst píanóleikari en tónlistin er rafræn. Það er erfitt að meta stemninguna í salnum en hér á Verkstæðinu á Akureyri er hún að komast á flug.

Xxx Rottweiler hundar eru að spila Verkstæðinu og húsið er pakkað. Krádið er í aðal atriðum eins og það á Airwaves en ég get ekki verið viss þar sem ég er með leynitrix þar sem ég stari á endann á hljóðnemanum mínum og leyfi fólkinu að fara úr fókus. Ég er semsagt uppi á sviði að spila. Ég veit ekki afhverju ég horfi ekki í augun á krádinu, eitthvað til að ræða við þerapistann. Sumir fíla að koma fram því þeir elska athyglina, fyrir mér snýst þetta um núvitund. Svo er rapp líka bara geðveikt.

Xxx Rottweiler spiluðu á Akureyri um helgina.Baldur Þór Pálsson

Rétt eins og Daníel Ágúst beið þangað til í réttu lagi til að skipta úr skírnarkjólnum í glansnáttfötin verð ég að bíða þangað til á réttu mómenti með að fara úr kisubolnum og á hlýrann. Ég er búinn með svona 20 óáfenga og dett í augnablik úr núvitund og spái í hvort ég sé nokkuð með þanda bjórvömb. Tónleikarnir ganga vel og Erpur er mikið að beita „þegar ég segi þetta þá segið þitt hitt“. Fólkinu finnst það skemmtilegt en ég sá það aldrei á Airwaves. Una Torfa er ekki mikið að henda í þegar ég segi Una segið þið Torfa. Hún ætti samt að gera það.

Eftir tónleikana ligg ég í endorfín vímu baksviðs og horfi á JFDR í streymi. Það er dimmt á sviðinu, hún syngur gullfallega og það eru fiðluleikarar. Við vorum ekki með neitt svoleiðis. Hún tekur ekki heldur þegar ég segi JF segið þið DR. Erpur er að tala hátt og mikið um Morgunblaðið og Palestínu við dreddagæjann úr Sólstöfum svo ég hækka í heyrnatólunum og skelli nokkrum fire emoticons í spjallið.

Bent horfði á JDFR í streymi baksviðs.Bent

í Samkvæmt Spotify er Patri!k (Prettyboitjokko) einn vinsælasti tónlistarmaður á Íslandi. Verður kannski seint bókaður á Airwaves en hann er að spila á Sjallanum og ég er mættur.

Á Sjallanum er grímuball, 18 ára aldurstakmark og tæki sem mælir hversu fast maður kýlir. Gott kombó ef maður fílar unglinga með kúrekahatta að slást.

Patri!k er að spila eigin tónlist í botni baksviðs, það er alvöru rokkstjörnu múv. Lögin hljóma smá eins og Alvin og íkornarnir en það var svosem vinsælt líka. Nú ganga tjokkóar í víðu. Hann er í svo útvíðum og víðum buxum og svo litlum jakka að hann lítur út eins og jólatré eða kranskaka.

Patr!k tróð upp á Akureyri.Bent

En hann er auðvitað fljótur að rífa sig úr. Fólkið í salnum er að skemmta sér konunglega og Patr!ik greinilega fílar að vera á sviði. Kannski er það núvitundin.

Hann tekur Gugguvaktina og mér líður eins og ekkert skipti máli. En það er dúndurstuð í salnum, ekki hægt að taka það af honum. Hiti á klúbbnum. Það er tröllvaxinn dyravörður uppi á sviði allan tímann til að halda tryllingnum í skefjum. Það þarf aldrei á Mugison tónleikum.

Í morgunfluginu segir Margrét í Vök/Gus Gus mér að seinna sjóið þeirra hafi verið töluvert villtara en það sem ég sá. Útlendingur hrósar Daníel fyrir góða tónleika og hann þakkar fyrir með fullan munn af rækjusamloku. Það voru greinilega allra þjóða kvikindi á þessu, alveg eins og á Airwaves.

„Ég er með lint áhald sem þyrstir í framhjáhald,“ söng söngvarinn í hljómsveitinni Tuð.Bent

Besta hljómsveitin var greinilega geymd þangað til í endann því núna á sunnudeginum er pönkhljómsveitin Tuð að byrja í Lucky Records. Þeir eru geggjaðir.

Ég sest á borðið og strax í fyrsta lagi þarf ég að hoppa af þegar söngvarinn stekkur upp á það og öskursyngur „Ég er með lint áhald sem þyrstir í framhjáhald“. Þessi tónlist setur mann í tryllingslega maníu. Það myndast lítill mosh pittur fremst sem samanstendur af hvítri konu með dredda, jólasveinalegum náunga og gæjanum í appelsínugula gallanum, sem hlýtur að vera orðinn svolítið súr núna.

Þeir benda á að maður eigi ekkert að hafa áhyggjur þó maður fíli ekki öll lögin, því það lengsta er mínúta og fjörutíu sekúndur. Ég fíla þau öll.

Tarrak tróð upp í Smekkleysu.Bent

Róttæki grænlenski rapparinn Tarrak er að spila í Smekkleysu. Ég hitti hann þegar hann spilaði á Kexinu 2017 en þá var hann ekki búinn að flúra allar þessar línur framan í sig. Hann rappar á grænlensku og það er ómögulegt að dæma rapp þegar maður skilur ekki tungumálið. En taktarnir eru hraðir og þéttir og Tarrak er svo orkumikill að hann skellir í breikdans rútínu á milli versa. „Finally we can be here. We can join you.“

Hópur fólks salnum byrjar að syngja lag á grænlensku, Tarrak er snortinn. Ég hugsa að þetta hljóti að vera baráttusöngur grænlenskra frumbyggja (þetta var afmælislagið).

Hátíðin var góð í ár. En það var líka stemning á j-dags hátíðarhöldunum og á Akureyri svo að kannski er djamm bara snilld.

Þegar ég segi air segið þið waves! Air! - Air!


Tengdar fréttir

Dagbók Bents: Axl Rose á ekkert í Eyþór Inga

Ég veit ekki hverju ég bjóst við. Trúnó með Sigur Rós hljómar bara svo juicy, eins og Jónsi ætli að deila með okkur svæsnum sögum um kynsvall í sundlauginni í Mosó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×