Fótbolti

Danska sam­bandið herðir alla öryggis­gæslu í kringum lands­liðin sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlín Eiríksdóttir í baráttu við fyrirliða danska landsliðsins í leik þjóðanna á Laugardalsvelli í síðustu viku.
Hlín Eiríksdóttir í baráttu við fyrirliða danska landsliðsins í leik þjóðanna á Laugardalsvelli í síðustu viku. Vísir/Hulda Margrét

Forráðamenn danska knattspyrnusambandsins hafa áhyggjur af öryggismálum sinna landsliða og stuðningsmanna þeirra vegna þess óvissuástands sem ríkir í heiminum.

Stríðið í Úkraínu og ástandið á Gasa-svæðinu í viðbót við skotárásina í Brussel 16. október síðastliðinn hefur þau áhrif að danska sambandið ætlar að herða alla öryggisgæslu í kringum landsliðin.

Í Brussel voru tveir stuðningsmenn sænska landsliðsins skotnir til bana í hryðjuverkaárás stutt frá keppnisvellinum. Leik Belgíu og Svíþjóðar var hætt í hálfleik þegar sænska landsliðið frétti af örlögum landa sinna.

Danska ríkisútvarpið fjallar um á vef sínum viðbrögð danska knattspyrnusambandsins við þessu.

„Núverandi ástand gefur tilefni til að hafa áhyggjur og þess vegna höfum við tekið þá ákvörðun að einbeita okkur enn frekar að öryggismálum okkar,“ sagði Jesper Möller, forseti danska sambandsins, við DR Sporten.

„Við höfum farið yfir alla ferla og öryggismál þeirra. Við ætlum að gera breytingar á mörgum stöðum og þá bæði þegar kemur að leikmönnum og stuðningsfólki,“ sagði Möller.

Forseti danska sambandsins segir að þessar hertu öryggisreglur verði við lýði á meðan ástæða er talin til þess.

Íslenska kvennalandsliðið spilar á móti danska landsliðinu í Viborg í næsta mánuði en þar síðasti leikur liðanna í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×