Sport

Opinberar hvað hann sagði við Fury eftir að hafa slegið hann niður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Francis Ngannou gerði sér lítið fyrir og sló Tyson Fury niður í bardaga þeirra á laugardaginn.
Francis Ngannou gerði sér lítið fyrir og sló Tyson Fury niður í bardaga þeirra á laugardaginn. getty/Justin Setterfield

Francis Ngannaou hefur greint frá því hvað hann sagði við Tyson Fury þegar hann sló heimsmeistarann í gólfið í bardaga þeirra í Sádi-Arabíu um helgina.

Ngannou, sem er fyrrverandi meistari í þungavigt í UFC, mætti Fury sem er ósigraður á atvinnumannaferli sínum í hnefaleikum í boxbardaga á laugardaginn.

Fæstir töldu Ngannou eiga mikla möguleika gegn Fury en hann lét það sem vind um eyru þjóta og sló Sígaunakónginn svokallaða í gólfið í þriðju lotu. Þrátt fyrir að Fury hafi á endanum unnið bardagann stóð högg Ngannous upp úr í honum.

Ngannou gat ekki stillt sig um að skjóta aðeins á Fury eftir að hafa slegið hann í gólfið, eins og hann greindi frá á YouTube-síðu sinni.

„Þegar við heilsuðumst fyrir bardagann sagðist hann ætla að taka mig í kennslustund. Ég sagði: mannfjandi, þú gerir það ekki,“ sagði Ngannou.

„Þess vegna dansaði ég fyrir framan hann þegar ég var búinn að slá hann niður og sagði: þú ert slæmur prófessor, mannfjandi! Þú ert slæmur prófessor. Hvernig gengur í skólanum? Hver er að taka hvern í kennslustund? Því það lítur út fyrir að ég sé að taka þig í kennslustund.“

Ngannou talaði einnig um að honum fyndist hann hafa unnið bardagann en verið hlunnfarinn af dómurunum sem hefði eflaust þótt erfitt að dæma nýliða í boxbardaga í hag.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×