Körfubolti

Jokic og meistararnir byrja nýtt tímabil eins og ekkert hafi breyst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic var frábær í fyrsta leik sem ríkjandi NBA meistari þar sem Denver liðið vann Los Sngeles Lakers.
Nikola Jokic var frábær í fyrsta leik sem ríkjandi NBA meistari þar sem Denver liðið vann Los Sngeles Lakers. APDavid Zalubowski

Það virðist lítið hafa breyst frá því að síðasta NBA tímabili lauk. Nikola Jokic bauð upp á þrennu og Denver Nuggets vann Los Angeles Lakers í fyrsta leik í nótt

Denver varð NBA meistari í fyrsta sinn í sumar og hélt upp á titilinn með því að vinna sannfærandi tólf stiga sigur á Los Angeles Lakers, 119-107, í opnunarleik tímabilsins.

Jokic var með 29 stig, 13 fráköst og 11 stoðsendingar í leiknum og Jamal Murray bætti við 21 stigi. „Mér finnst við stjórna leiknum allan tímann,“ sagði Nikola Jokic eftir leikinn.

Denver náði snemma átján stiga forystu í leiknum en liðið var 34-20 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Lakers náði muninum niður í níu stig fyrir hálfleik og náði síðan 13-0 spretti í kringum leikhlutaskipti þriðja og fjórða. Með því fór munurinn niður í þrjú stig, 87-84, áður en Denver gaf aftur í og landaði sigrinum.

LeBron James var atkvæðamestur hjá Lakers með 21 stig en menn sáu það að hann var hvíldur meira en í fyrra og spilaði bara 29 mínútur í leiknum.

„Ég vil alltaf vera inn á gólfinu og ekki síst í leik sem þú átt möguleika á því að vinna. En það er ákveðið skipulag í gangi og ég fylgi því,“ sagði LeBron James eftir leikinn. Hann er elsti leikmaður deildarinnar enda orðinn 38 ára gamall.

Taurean Prince skoraði 18 stig í fyrsta leiknum með Lakers og Anthony Davis var með 17 stig.

Devin Booker og Kevin Durant fóru yfir 108-104 sigri Phoenix Suns á Golden State Warriors í hinum leik næturinnar. Booker var með 32 stig og 8 stoðsendingar en Durant var með 18 stig og 11 fráköst. Josh Okogie bætti við 17 stigum og nýi miðherjinn Jusuf Nurkic var með 14 stig og 14 fráköst.

Stephen Curry skoraði 32 stig fyrir Golden State, Klay Thompson var með 15 stig og Chris Paul bauð upp á 14 stig og 9 stoðsendingar í fyrsta leiknum með liðinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×