Fótbolti

Félix má fara til Barcelona fyrir rúma tíu milljarða

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
João Félix kann vel við sig í Katalóníu.
João Félix kann vel við sig í Katalóníu. Alex Caparros/Getty Images

Atlético Madríd er tilbúið að selja portúgalska framherjann João Félix til Spánarmeistara Barcelona fyrir 70 til 80 milljónir evra eða rúmlega 10 milljarða íslenskra króna.

Hinn 23 ára gamli framherji er sem stendur á láni hjá Spánarmeisturunum og líkar vel. Hann hefur komið að sex mörkum í átta leikjum og samkvæmt ESPN tengir Félix vel við markamaskínuna Robert Lewandowski.

ESPN segir einnig að Joan Laporta, forseti Barcelona, sé bjartsýnn á að félagið getið keypt Félix þegar lánssamningurinn hefur runnið sitt skeið. Það virðist sem Laporta vonist til að ofurumboðsmaðurinn Jorge Mendes geti aðstoðað Katalóníufélagið þar sem fjárhagsstaða þess er ekki upp á marga fiska þessa dagana.

Félix skrifaði nýverið undir framlengingu á samningi sínum í Madríd og er samningsbundinn til ársins 2029. Það eru því litlar sem engar líkur á að Barcelona fái afslátt og verður áhugavert að sjá hvað félagið þarf að gera til að finna þær 70-80 milljónir evra sem Atlético vill fá fyrir leikmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×