Körfubolti

James Harden skrópaði á æfingu hjá Philadelphia

Smári Jökull Jónsson skrifar
Harden var mættur á leik Inter Miami og Houston Dynamo á dögunum.
Harden var mættur á leik Inter Miami og Houston Dynamo á dögunum. Vísir/Getty

James Harden lét ekki sjá sig á æfingu hjá liði Philadelphia 76´ers í NBA-deildinni í dag. Harden hefur ekki tekið þátt í neinum leikjum liðsins á undirbúningstímabilinu.

Harden hefur ekki látið sjá sig með liði 76´ers síðan á sunnudag. Hann missti af skotæfingu á mánudag sem og æfingaleik gegn Brooklyn Nets. Hann skrópaði síðan á æfingu liðsins í dag. Óljóst er hvort eða hvenær Harden mun snúa aftur á æfingar liðsins.

The Athletic greindi frá því að forráðamenn 76´ers og Los Angeles Clippers væru í viðræðum um möguleg leikmannaskipti en Harden hefur lýst yfir miklum áhuga að ganga til liðs við Clippers.

Í sumar sagði Harden að hann vildi yfirgefa Philadelphia og helst ganga til liðs við Los Angeles Clippers. Hann lenti síðan upp á kant við Daryl Morey, yfirmann körfuknattleiksmála hjá 76´ers, og kallaði hann lygara eftir að liðið ákvað að slíta viðræðum um skipti. Harden hét því þá að hann myndi aldrei vera hluti af liði sem Morey væri hluti af.

NBA sektaði Harden fyrir ummælin en leikmannasamtökin svöruðu með því að áfrýja sektinni. Harden skoraði 21 stig að meðaltali í leik með Philadelphia í fyrra en liðið komst alla leið í undanúrslit Austurdeildarinnar þar sem liðið tapaði í oddaleik gegn Boston Celtics.

Harden verður samningslaus næsta sumar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×