Fótbolti

Scho­les hefur ekki séð betri leik­mann á sama aldri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jude Bellingham hefur raðað inn mörkum á fyrsta tímabili sínu með Real Madrid.
 Jude Bellingham hefur raðað inn mörkum á fyrsta tímabili sínu með Real Madrid. AP/Jose Breton

Paul Scholes er einn af bestu miðjumönnum sem Englendingar hafa átt og átti magnaðan feril með Manchester United. Það er óhætt að segja að þessi goðsögn sé hrifinn af landa sínum Jude Bellingham.

Paul Scholes hrósaði Jude Bellingham mikið í viðtali á TNT Sports en fram undan eru landsleikir hjá Englendingum í undankeppni EM.

„Miðað við aldur og það sem hann hefur afekað þegar þá er hann betri á þessum tíma á ferli sinum en nokkur annar leikmaður sem ég hef séð,“ sagði Paul Scholes aðspurður um Jude Bellingham.

Bellingham hefur skorað tíu mörk í fyrstu tíu leikjum sínum með Real Madrid í öllum keppnum. Hann er samt enn bara tvítugur.

„Þetta er svo metnaðarfullur strákur, ákveðinn í að standa sig, mikill atvinnumaður í öllu sem hann gerir og með alla þessa hæfileika. Það er ótrúlegt að sjá þetta,“ sagði Scholes.

„Ofan á allt saman þá er hann með réttu skapgerðina til að ráða við þetta allt saman. Það virðist ekkert slá hann út af laginu,“ sagði Scholes.

„Hann fór til eins stærsta félags í heimi sem er Real Madrid og hann heldur sínu striki alveg eins og hann sé bara að spila fyrir Birmingham. Hann stendur svo mikið upp úr,“ sagði Scholes.

„Hann er sigurvegari. Hann hefur áhrif á fótboltavelli. Það er svo mikið af miðjumönnum í dag sem halda að þeir séu að spila vel þegar þegar liðið heldur boltanum í 75 eða 80 prósent af leikjunum en þeir hvorki skora sjálfir né búa til mark fyrir aðra,“ sagði Scholes.

„Hann er að vinna fótboltaleiki fyrir liðið sitt. Þess vegna er hann að spila fyrir Real Madrid. Vonandi getur hann gert það líka fyrir enska landsliðið,“ sagði Scholes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×