Fótbolti

Guðni Eiríksson: Ég hélt að þetta yrði markaleikur

Dagur Lárusson skrifar
Guðni Eiríksson.
Guðni Eiríksson. Vísir/Hulda Margrét

Guðni Eiríksson, þjálfari FH, sagði í viðtali eftir leik að lokatölur leiksins hafi komið honum á óvart.

„Ég sagði fyrir leik að þetta yrði markaleikur en svo varð aldeilis ekki raunin. Þetta var 0-0 leikur en hann var mjög opinn,“ byrjaði Guðni að segja eftir leik.

„Bæði lið fengu fullt af færum og við hefðum vissulega geta stolið þessu undir lokin, það hefði verið virkilega sætt en 0-0 líklega bara sanngjarnt.“

Guðni talaði aðeins um Herdísi Höllu Guðbjartsdóttur í markinu sem var að spila sinn þriðja leik í efstu deild, aðeins 16 ára gömul.

„Ég er svo ánægður með þessa stelpu. Við höfum heldur betur hent henni út í djúpu laugina. Ég sagði við hana eftir leik að þetta væri svo sterk yfirlýsing frá henni, hún er að sýna að hún eigi heima í Bestu deildinni.“

„Við viljum vera svona í FH, gefa ungum leikmönnum tækifæri og þetta er svo jákvæð þróun.“

Guðni sagðist síðan vera sáttur með tímabilið

„Algörlega, við erum sátt með tímabilið. Við erum sátt með hvernig liðið þróaðist og sátt með uppleggið okkar og hvað við höfum verið að gera,“ endaði Guðni Eiríksson að segja eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×